- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Meistaraflokkur karla lagði land undir fót í morgun og hélt af stað til Eistlands þar sem þeir munu taka þátt í forkeppni FIBA Europe Cup. Þar sem að Tindastóll varð íslandsmeistari í vor áttu þeir rétt ásamt 4 efstu liðum deildarinnar að sækja um þátttöku í þessari keppni. Um er að ræða þriggja liða riðil í forkeppni og mun það lið sem verður í fyrsta sæti tryggja sér þátttöku í riðlakeppni mótsins og er þá keppt heima og að heiman í fjögurra liða riðlum.
Liðið hélt til Reykjavíkur í gær, laugardag með stoppi í Varmá í Mosfellsbæ þar sem þeir léku æfingaleik við Stjörnuna og var það lokaþáttur í undirbúningi fyrir ferðina til Eistlands. Stjarnan fór með sigur af hólmi 74 - 69.
Hópurinn hélt svo af stað kl. 5 í morgun til Keflavíkur. Þar tók okkar maður Brynjar Rafn Birgisson, stóri bróðir Péturs Rúnars á móti okkur og sá um að innritun hópsins gengi vel fyrir sig. Jómfrúin sá svo til þess að hópurinn færi ekki svangur úr landi og bauð liðinu í morgunmat. Það er dýrmætt að eiga gott fólk að. Takk fyrir okkur Brynjar og Jómfrúin.
Flogið var til Arlanda í Svíþjóð þar sem var stutt stopp áður en var flogið var til Tallinn og þaðan var svo tveggja tíma rútuferð til Pärna. Hópurinn er mættur á hótel eftir gott ferðalag. Á morgun, mánudag er æfing.
Tindastóll hefur leik á þriðjudag, 3. október kl. 16:00 á íslenskum tíma á móti heimamönnum í Pärnu.
Miðvikudaginn 4. október leikur Tindastóll svo seinni leik sinn í riðlinum og er sá leikur á móti BC Trepca frá Kósóvó og hefst hann einnig kl. 16:00 á íslenskum tíma.
Hægt verður að fylgjast með leikjum Tindastóls á heimasíðu FIBA og er tengil með öllum upplýsingum um mótið hér