- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Vormót Júdósambands Íslands (JSÍ) fyrir yngri flokka, frá 11 ára til 20 ára, var haldið á Akureyri í dag. Júdódeild Tindastóls átti fimm fulltrúa á mótinu og komu þeir heim með þrjú silfur og tvö brons.
Alls kepptu 84 keppendur frá tíu júdófélögum á Vormótinu, sem var að þessu sinni haldið í KA heimilinu á Akureyri. Mótið hófst klukkan 9:30 og því lauk sex klukkutímum síðar, klukkan 15:30.
Sex voru skráðir til leiks frá Júdódeild Tindastóls en Steinn Gunnar Runólfsson neyddist til að hætta við vegna veikinda og því kepptu fimm fulltrúar Júdódeildarinnar á mótinu.
Þóranna Ásdís Fjólmundsdóttir lenti í öðru sæti í blönduðum flokki, en hún meiddist í fyrri gímu sinni og varð að gefa hana þegar skammt var eftir þrátt fyrir að vera stigahærri og með undirtökin í gímunni. Hún lét það þó ekki stöðva sig og vann síðari viðureignina eftir að hafa tjaslað sér saman í millitíðinni.
Haukur Rafn Sigurðsson keppti í sterkum flokki og tapaði tveimur fyrstu viðureingum sínum. Hann barðist hins vegar mjög vel í síðustu glímunni sinni og náði að landa sigri og þar með var þriðja sætið hans.
Arnór Freyr Fjólmundsson mætti einbeittur til leiks og vann fyrri viðureign sína. Hann tapaði hins vegar síðari glímunni og varð því að gera sér annað sætið að góðu.
Veigar Þór Sigurðarson var að keppa á sínu fyrsta JSÍ móti og stóð sig virkilega vel þrátt fyrir að tapa báðum viðureignum sínum. Hann átti góða spretti í glímunum og það var augljóst að hann var þarna kominn til að njóta þess að keppa á júdómóti.
Þorgrímur Svavar Runólfsson keppti upp fyrir sig í aldursflokki því að keppinautur í hans flokki dró sig úr keppni. Hann átti erfitt uppdráttar gegn mun reynslumeiri og sterkari andstæðingi og tapaði fyrir honum tvívegis, en aðeins tveir voru í þessum flokki og þurfti að vinna tvær viðureignir til að sigra. Hann fékk þó að launum silfurverðlaun fyrir erfiðið.
Tveir vinir okkar úr Pardusi á Blönduósi voru einnig að keppa á mótinu. Benedikt Þór Magnússon lenti í þriðja sæti í sínum flokki eftir hörku viðureignir og Guðjón Freyr Sighvatsson nældi sér í þriðja sætið eftir virkilega flotta frammistöðu.
Það er ljóst að bæði Júdódeild Tindastóls og Júdófélagið Pardus áttu mjög frambærilega þátttakendur á þessu móti sem voru sér og félagi sínu til sóma á allan hátt. Það verður líka að hrósa þeim fyrir árangurinn og keppnisviljann og ljóst er að framtíðin er björt fyrir júdóiðkendur á Norðurlandi vestra.
Sjá má nokkrar myndir hér fyrir neðan sem Einar Örn Hreinsson tók á mótinu.