- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Í forsíðufrétt Stundarinnar stígur fjöldi kvenna fram og segir frá kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri áreitni sem þær urðu fyrir af hendi fyrrverandi starfsmanns og leikmanns knattspyrnudeildar félagsins. Kemur þessi frétt í kjölfar #MeToo umræðunnar þar sem konur í fjölmörgum greinum stigu fram og sögðu frá sinni reynslu af kynferðislegri áreitni, kynferðislegu ofbeldi, þöggun og lítilsvirðingu. Konur í íþróttum voru þar á meðal og áttu sumar af þeim sögum sem nístu hjartað hvað mest. Þessar frásagnir kvennanna í Stundinni gerðu það einnig.
Það er mikilvægt að íþróttahreyfingin í heild sinni hlusti á þessar raddir þolenda og aðstandenda þeirra, læri af þeim og bregðist við af fullum þunga. Ábyrgð stjórnenda, formanna, forsvarsmanna og þjálfara er þar mikil. Stjórnendur Ungmennafélagsins Tindastóls vilja því sérstaklega taka fram að félagið stendur með þolendum. Við tökum ábyrgð okkar alvarlega og við tökum málstað þolenda alvarlega. Kynferðislegt ofbeldi, kynferðisleg áreitni, einelti eða annað ofbeldi verður ekki undir neinum kringumstæðum liðið í starfi Ungmennafélagsins Tindastóls.
Þegar er hafin vinna innan UMSS við að skoða með hvaða hætti sé hægt að fyrirbyggja og taka á þessu stóra vandamáli. Ungmennafélagið Tindastóll, sem eitt af aðildarfélögum UMSS, hyggst innleiða þær stefnur og samþykktir sem kynntar verða á næstkomandi ársþingi þess. En það eru: siðareglur, jafnréttisstefna, fræðslu- og forvarnarstefna og viðbragðsáætlun vegna aga- eða ofbeldisbrota, eineltis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni. Á næsta fundi aðalstjórnar Ungmennafélagsins Tindastóls með formönnum deilda félagsins verður farið yfir þessi mál, áætlanirnar kynntar en einnig Viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins sem og bæklingur sem gefinn var út af ÍSÍ um Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum.
Það er mikilvægt að iðkendur félagsins, foreldrar og aðstandendur þeirra geti treyst því að þau séu örugg á vettvangi félagsins. Það er okkar stjórnenda að tryggja það að svo sé. Stórt skref í því er að opna umræðuna og setja málefnið í forgang. Það er okkar von að umræðan um þetta alvarlega mál hafi þær breytingar í för með sér að þolendur treysti sér frekar til að stíga fram og að þeim sé trúað. Að við sem íþróttafélag stöndum okkur betur þegar þessi erfiðu mál koma upp. Að við sem samfélag tökum betur á þessum málum. Að þegar við sjáum eitthvað, þá segjum við eitthvað og styðjum þá sem á þurfa að halda. Þær ungu konur sem stigu fram og sögðu sína sögu eiga skilið þakklæti fyrir mikinn styrk. Skömmin er gerandans.
Stjórn Ungmennafélagsins Tindastóls