- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Aðalfundur Júdódeildar Tindastóls var haldinn í mötuneyti FNV í gær.
Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf og eftir að fundarmenn höfðu gert skil á gómsætri súpu hófst dagskráin.
Gerð var grein fyrir starfi síðasta árs og annáll ársins 2017 lesinn upp. Yfirfarnir reikningar fyrir starfsárið 2017 voru lagðir fram og samþykktir - en þá má skoða í viðauka annálsins. Stjórnarmenn gáfu allir áfram kost á sér og voru endurkjörnir: Einar Örn Hreinsson, Helena Magnúsdóttir, Jakob Smári Pálmason, Ingibjörg Ásta Sigurðardóttir og Magnús Hafsteinn Hinriksson.
Nokkur mál voru reifuð undir liðnum önnur mál.
Þar fór mest fyrir umræðu um æfingaaðstöðu Júdódeildarinnar, en stjórnin lítur svo á að núverandi æfingaaðstaða sé einungis til bráðabirgða. Nokkrir möguleikar voru ræddir sem ekki er tímabært að útlista nánar.
Nokkur umræða fór fram um skipulag æfinga. En þar setja tímar íþróttahússins og fjöldi þjálfara nokkrar skorður. Eins og stendur er einungis einn þjálfari á Sauðárkróki sem sinnir deildinni og ekki fást fleiri tímar undir Júdó í íþróttahúsinu, sem er mjög umsetið. Ef vel ætti að vera þyrfti að skipta iðkendum upp í a.m.k. tvo aldurshópa, en nú eru allir iðkendur saman á æfingum utan einnar, sem er ætluð eldri iðkendum.
Einnig sköpuðust umræður um útdeilingu styrks Sveitarfélagsins til Aðalstjórnar Tindastóls. Í upphafi starfsemi Júdódeildar Tindastóls árið 2014 styrkti Sveitarfélagið deildina um 600 Þ.kr. og Aðalstjórn Tindastóls um 300 Þ.kr. til dýnukaupa. Júdódeildin hefur hins vegar ekki fengið neina aðra styrki greidda hvorki frá Sveitarfélaginu né Aðalstjórn og fær ekkert af þeim peningum sem renna frá Sveitarfélaginu til Aðalstjórnar Tindastóls og ætlaðir eru til eflingar íþróttastarfs.
Eftir nokkuð fjörugar umræður fékk fundarstjóri nóg og sleit fundi.
Stjórnin lítur bjartsýn fram á veginn og vill að lokum þakka öllum þeim sem sáu sér fært að mæta á fundinn.