- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Um helgina voru haldnar æfingabúðir í Júdó á Sauðárkróki þar sem iðkendur frá Júdódeild UMF Selfoss og Júdófélaginu Pardus sóttu Júdódeild Tindastóls heim.
Undanfarin tvö ár, 2017 og 2018, hefur Júdófélagið Pardus á Blönduósi haldið æfingabúðir með svipuðu sniði þar sem þessi þrjú júdófélög hafa komið saman og æft. Að þessu sinni var skipt um staðsetningu og júdódeild Tindastóls tók á móti hópnum.
Æfingabúðirnar samstóðu af tveimur júdóæfingum ásamt samverustundum utan æfinga. Fyrri æfingin fór fram á laugardeginum frá klukkan 15:30 til 17:30 og eftir æfinguna bauð Júdódeild Tindastóls iðkendum og fylgdarliði upp á grillað lambakjöt og meðlæti í Húsi Frítímans, en þar gistu gestirnir. Sunnudagsæfingin stóð svo yfir frá 11:30 til 13:30 og buðu Selfyssingarnir hópnum upp á pylsur með öllu eftir æfinguna áður en að heimferð kom.
Eins og fyrr segir er þetta þriðja árið í röð sem þessi júdófélög hittast á æfingabúðum á Norðurlandi og hafa þær ávalt verið vel sóttar og heppnast ákaflega vel. Það er mjög þroskandi og skemmtilegt fyrir þátttakendur að fá tækifæri á því að kynnast nýjum æfingafélögum í gegnum glímur og leiki á júdóæfingum og ekki síður með samverustundum utan æfinga.
Stjórn Júdódeildar Tindastóls vill koma á framfæri þökkum til allra sjálfboðaliða og gesta sem gerðu þessa júdóhelgi að stórskemmtilegum og eftirminnilegum viðburði.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá æfingabúðunum sem birtar eru með leyfi Auðar Ingu Ingimarsdóttur, Ingibjargar Ástu Sigurðardóttur og Einars Arnar Hreinssonar.