- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Í kvöld buðu iðkendur Júdódeildarinnar foreldrum, systkinum og öðrum gestum með sér á æfingu þar sem iðkendur fengu tækifæri til að kynna júdóíþróttina og glíma við gestina.
Foreldraæfingar eru haldnar einu sinni á önn þar sem iðkendum gefst færi á því að æfa með foreldrum sínum og öðrum gestum. Þetta eru vinsælar æfingar, bæði meðal iðkenda og foreldra, sem fá þar gott tækifæri til að kynnast íþróttinni enda er júdó frábær fjölskylduíþrótt.
Margir foreldrar og systkini létu sjá sig í kvöld bæði frá Sauðárkóki og austan Vatna, en boðið er upp á júdóæfingar á Hofsósi í samstarfi við Neista þar sem á annan tug iðkenda æfir undir stjórn Jakobs Smára Pálmasonar bónda í Garðakoti.
Það var gaman að fylgjast með æfingunni í kvöld þar sem sjá mátti hörku viðureignir þar sem lítið var gefið eftir. Ekki var annað að merkja en að allir hafi skemmt sér vel og lært sitthvað nýtt.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá æfingunni sem teknar voru af Grétari Karlssyni.