2. umferð Íslandsmóts yngri flokkanna lokið

10. flokkur stúlkna og 9. flokkur drengja luku 2. umferð Íslandsmótsins um helgina þegar þeir kepptu annars vegar á Flúðum og hins vegar á Akureyri.

10. flokkur stúlkna spilaði í B-riðli á Flúðum á föstudag og laugardag. Stelpurnar mættu þar liðum Hrunamanna/Hamars, Sindra frá Höfn og FSu frá Selfossi. Fyrirfram var ljóst að fyrsti leikur liðsins, gegn Hrunamönnum/Hamar, yrði úrslitaleikur riðilsins, þar sem hin tvö liðin eru skemmra á veg komin í íþróttinni en þessi tvö.

Stelpurnar voru ekki alveg tilbúnar í upphafi leiksins og H/H gekk á lagið. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 8-15. Annar leikhlutinn var í járnum og í hálfleik var staðan 17-24. Það syrti í álinn í þriðja leikhluta því H/H komst í 19-32 og útlitið hreint ekki bjart, hins vegar náðu okkar stelpur að þétta vörnina síðustu mínútur leikhlutans og skoruðu 8 síðustu stig leikhlutans og staðan 27-32 við upphaf fjórða leikhlutans. Fínn ákafi var nú kominn í varnarleikinn og náði Tindastóll að minnka muninn í 37-39 þegar skammt lifið leiks. Slæmar ákvarðanir í sókninni urðu hins vegar til þess að liðið missti boltann tvisvar sinnum og að lokum voru það liðsmenn Hrunamanna/Hamars sem skoruðu síðustu stigin af vítalínunni og tap því staðreynt 37-41. Bríet Lilja skoraði 13 stig í leiknum, Árdís Eva 12, Guðlaug Rún og Jóna María 6 hvor og Valdís Ósk 1.

Strax á eftir spiluðu stelpurnar við lið Sindra frá Höfn. Sindraliðið er langt á eftir okkar stelpum og því vannst mjög öruggur sigur 98-20. Stigin skoruðu; Bríet Lilja 36, Árdís Eva 20, Guðlaug Rún 18, Anna Valgerður 9, Sunna 6, Jóna María 5 og Valdís Ósk 4.

Á laugardagsmorguninn var svo komið að síðasta leik liðsins í þessu móti, gegn FSu. Þær eru á svipuðum stalli og Sindri og vannst öruggur sigur 83-11. Bríet Lilja skoraði 35 stig, Guðlaug Rún 19, Árdís Eva 15, Valdís Ósk 8, Anna Valgerður 4 og Sunna 2.

9. flokkur drengja lék í sínu fyrsta móti í C-riðli, eftir að hafa unnið D-riðilinn örugglega í fyrstu umferðinni. Strákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu C-riðilinn og tryggðu þar með sæti í B-riðli, sem er mjög góður árangur hjá þeim. Oddur Ben sendi heimasíðunni eftirfarandi umfjöllun;

Annað Íslandmótið af fjórum í 9. flokki var haldið á Akureyri.  Leikið var í C-riðli, ljóst var að liðin væru sterkari en á síðasta móti en þá lékum við í D-riðli.  Liðin í riðlinum voru við í Tindastól, gestgjafarnir í Þór, Skallagrímur, Snæfell og Sindri.  Leikmenn Tindastóls í mótinu voru: Pálmi, Elvar, Arnar Ó, Ólafur, Hartmann, Halldór og Örvar.

Tindastóll – Skallagrímur 47-42 (22-24)

Fyrsti leikur okkar var gegn Skallagrímsmönnum en þeir léku á fyrsta mótinu í B-riðlinum, þannig að ljóst var að leikurinn yrði erfiður.  Byrjunin á leiknum var ekki góð og náðu Borgnesingar 8-0 forystu, tóku við þá leikhlé og fórum yfir málin, skánaði leikurinn töluvert eftir það og leiddum við eftir fyrsta leikhluta 12-10. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta og illa gekk að halda aftur af hröðum leikmönnum Skallagríms, staðan í hálfleik 22-24.  Illa gekk að skora í þriðja leikhluta, staðan 29-34.  Jafnræði var með liðunum í byrjun fjórða leikhluta og þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 33-40 Skallagrímsmönnum í vil.  Strákarnir voru staðráðnir í að gefa sig alla í lokamínúturnar og enduðu leikinn á 14-2 spretti og sigruðu leikinn 47-42.

Stigaskor Tindastóls: Pálmi 16, Elvar 14, Örvar 7, Halldór 6, Arnar 4

Tindastóll – Sindri 49-42 (24-17)

Annar leikur liðsins var gegn Sindra frá Höfn í Hornafirði.  Leikurinn byrjaði ágætlega og staðan eftir fyrsta leikhluta 10-8.  Í öðrum leikhluta jukum við forustuna, staðan í hálfleik 24-17.  Liðin skiptust á körfum í þriðja leikhluta staðan fyrir lokafjórðunginn 34-32.  Við byrjuðum fjórða leihlutann á hælunum og Sindramenn gengu á lagið og skoruðu fyrst 6 stig og minnkuðu muninn niður í 2 stig.  Við það hrukku Tindastólsmenn í gang og skoruðu næstu 8 stig, eftir það var leikurinn í góðu jafnvægi og endaði 49-42

Stigaskor: Pálmi 15, Elvar 13, Halldór 11, Arnar 4, Örvar 4, Ólafur 2

Tindastóll – Snæfell 57-66 (26-28)

Þriðji leikur Tindastóls á mótinu var gegn liði Snæfells frá Stykkishólmi.  Lið þeirra var vel mannað og illa gekk að ráða við miðherja þeirra en hann skoraði 31 stig í leiknum.  Við byrjuðum leikinn vel og vorum yfir eftir fyrsta leikhluta 15-10.  En þá fór að síga á ógæfuhliðina og varnarleikurinn fór heldur betur að slakna, staðan í hálfleik 26-28.  Eftir fyrri hálfleikinn vorum við í fínni stöðu en síðari hálfleikurinn byrjaði skelfilega og byrjuðu Snæfellingar á 17-2 spretti og leiddu þeir eftir þriðja leikhlutann 48-34.  Við byrjuðum að pressa í fjórða leikhlutanum og náðum við muninum niður í 3 stig en Snæfell var sterkara á lokasprettinum og unnu sanngjarnar 57-66 sigur.

Stigaskor: Örvar 19, Pálmi 18, Elvar 12, Halldór 8 

Tindastóll – Þór Ak. 52-39 (25-19)

Fyrir síðasta leik mótins var ljóst að 3 lið áttu möguleika á fyrsta sætinu og keppnisrétt í B-riðli á næsta móti.  Ef Þór myndi sigra leikinn eða tapa með minna en 5 stigum myndu þeir sigra riðilinn. Ef Tindastóll myndi vinna Þór með 5-11 stigum myndi Snæfell fara upp og ef Tindastóll ynni með 12 stigum eða meira myndu þeir sigra riðilinn.  Við Tindastólsmenn hófum leik í svæðisvörn, Akureyringarnir áttu auðvelt með að leysa hana, staðan eftir fyrsta leikhluta 15-13.  Í öðrum leikhluta lékum við grimmari vörn og leiddum í hálfleik 25-19.  Í byrjun þriðja leikhluta vorum við fljótfærir og gerðum of mörg mistök, við það minnkuðu Þórsarar muninn niður í 2 stig.  Við enduðum leikhlutann  vel og leiddum 39-30.  Ljóst var að við þurftum að sigra síðasta leikhlutann með 3 stigum.  Mikil spenna var hjá báðum liðum enda mikið í húfi en að lokum tókst okkur að sigra leikinn með 13 sigum 52-39.

Stigaskor: Elvar 22, Örvar 12, Pálmi 11, Ólafur 4, Halldór 3

Stákarnir léku vel mestmegnis allt mótið og eiga hrós skilið.  Þeim hefur tekist að sigra tvo riðla í röð og komast í B-riðilinn.  Þeir græddu á hverjum leik og ekki var hægt að slaka á í neinum leik vegna gæða hinna liðanna. Næst mót flokksins er helgina 23-24 febrúar og þangað til verðum við að æfa vel og vera tilbúnír fyrir b-riðilinn.

Oddur Ben