Aðalfundur körfuknattleiksdeildar í gærkvöldi

Aðalfundur körfuknattleiksdeildarinnar var haldinn í gærkvöldi. Á fundinum var Þröstur Jónsson kjörinn nýr formaður deildarinnar og samþykkt var að senda meistaraflokk kvenna til leiks í Íslandsmóti á næsta keppnistímabili.

Á fundinum kom fram að lítilsháttar tap varð á rekstri meistaraflokksins, eða upp á um 304 þúsund. Tekjur voru 20.639.118 en gjöld 20.943.275. Rekstur unglingaráðs skilaði hins vegar 198 þúsund krónum í hagnað, tekjur upp á 5.192.304 og gjöld kr. 4.993.568.

Geir Eyjólfsson formaður og Hólmfríður Sveinsdóttir gáfu ekki kost á sér áfram og var Þröstur Jónsson kjörinn formaður deildarinnar í stað Geirs. Þá kemur Ólafur Björn Stefánsson nýr í stjórnina. Auk Þrastar og Ólafs sitja í stjórninni þau Jón Ingi Sigurðsson, Ásmundur Baldvinsson, Una A Sigurðardóttir og Gunnlaugur Sighvatsson.

Á fundinum var samþykkt tillaga þess efnis að meistaraflokkur kvenna verði sendur í Íslandsmót á næsta keppnistímabili en meistaraflokkur kvenna hefur ekki verið starfræktur um árabil.