- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
ÍR-ingar komu í heimsókn í Síkið í kvöld og léku við lið Tindastóls í Dominos-deildinni. Stólarnir höfðu tapað tveimur leikjum í röð en þeir voru í fantaformi að þessu sinni og gestirnir áttu engan séns. Lokatölur urðu 105-83 og heimamenn enn sem fyrr í öðru sæti deildarinnar.
Bæði lið fóru ágætlega af stað en Tindastóll náði þó fljótlega forystunni. Um miðjan fyrsta leikhluta var staðan 13-11 en á næstu fjórum mínútum gerðu Stólarnir 17 stig en ÍR 1 og staðan var 30-16 að loknum fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta vakti Jónas Rafn Sigurjónsson mikla lukku hjá stuðningsmönnum Stólanna en kappinn, sem lítið sem ekkert hefur komið við sögu í vetur, setti niður þrjú 3ja stiga skot í leikhlutanum og bætti einu við í fjórða leikhluta og var með 100% nýtingu. Svabbi átti líka eftirminnilega 3ja stiga körfu en eftir að hafa klikkað á 3ja stiga skoti fékk hann boltann aftur og lét vaða frekar reiðilega af enn lengra færi og beint í við mikinn fögnuð áhorfenda. Lengstum annars leikhluta var munurinn um 15 stig á liðunum en undir lokin bættu Stólarnir aðeins í og staðan 58-38 í hálfleik.
ÍR-ingar komu beittari til leiks í síðari hálfleik en Stólarnir með Helga Viggós í miklum ham gáfu ekkert eftir. Dempsey var hvíldur í síðari hálfleik og Lewis kom ekkert við sögu í fjórða leikhluta og var byrjunarliðið sparað talsvert þegar leið á leikinn. Það kom ekki að sök því allir léku af miklu sjálfstrausti og geysilega gaman að sjá til liðsins. Munurinn varð mestur 26 stig í fjórða leikhluta en lokatölur sem fyrr segir, 105-83.
Lið Tindastóls átti fínan leik í kvöld. Helgi Viggós var atkvæðamestur með 19 stig og 9 fráköst og hann spilaði hörkuvörn á Trey Hampton sem virtist ekkert hafa gaman af heimsókn í Síkið. Lewis var sjálfum sér líkur og þá átti Ingvi frábæran leik bæði í sókn og vörn. Hittni leikmanna var góð í kvöld en Stólarnir skutu 63% innan teigs (36/57) og 43% (9/21) í 3ja stiga skotum.
Lið Tindastóls á aftur heimaleik í næstu viku en fimmtudaginn 12. febrúar kemur lið Fjölnis í heimsókn.
Stig Tindastóls: Helgi Viggós 19, Lewis 13, Svavar 12, Ingvi 12, Jónas 12, Flake 11, Dempsey 9, Pétur 6, Sigurður 5, Helgi Margeirs 4 og Viðar 2.