- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll spilar sína fyrstu leiki í Íslandsmótinu um helgina. Þá taka drengjaflokkur og meistaraflokkur á móti stórliði Stjörnunnar úr Garðabæ.
Drengjaflokkurinn spilar við Stjörnuna í Síkinu kl. 16.30 á sunnudaginn. Strákarnir hafa æft vel og sýnt lofandi frammiðstöðu í æfingaleikjum t.d. á móti Hetti um síðustu helgi. Í kvöld spila þeir reyndar æfingaleik við Þór frá Akureyri í Síkinu kl. 18.40.
Meistaraflokkurinn hefur leik sinn í Domino's deildinni með því að taka á móti Stjörnunni kl. 19.15. Stjörnunni er spáð góðu gengi í deildinni í vetur og er það ekkert skrýtið. Liðið hefur haldið leikmannakjarna sínum í nokkur ár og byggt sinn leik í kring um Justin Shouse, þann frábæra leikstjórnanda. Stjarnan hefur í sínum röðum bandarískan leikmann, Brian Mills, sem þykir hafa sýnt lofandi frammistöðu á undirbúningstímabilinu. Þá má nefna Jovan Zdravevski, Fannar Frey Helgason, Kjartan Atla Kjartansson, Marvin Valdimarsson, Dag Kár Jónsson og tvíbuarana Sigurjón og Guðjón Lárussyni. Mikil breidd og öflugt lið þarna á ferðinni.
Okkar menn hafa æft vel undanfarið og kanarnir að komast betur og betur inn í hópinn og leikskipulagið. Mikið mun mæða á þeim eins og öðrum lykilmönnum okkar og í haust hafa ungir og sprækir strákar verið að sýna lofandi frammistöðu og gaman verður að sjá hvort einhver þeirra fái að spreyta sig í leiknum á sunnudaginn.
Búið er að gefa út miðaverð á heimaleiki Tindastóls í vetur og er upplýsingar um það að finna HÉR. Stuðningsmönnum er bent á að mun hagkvæmara er að fjárfesta í ársmiða sem kostar 15.000 krónur, heldur en að borga inn á hvern stakan leik. Ársmiðinn gildir inn á alla heimaleiki í Domino's deildinni og Lengjubikarnum ( Fyrirtækjabikar KKÍ) en ekki í Poweradebikarnum (Bikarkeppni KKÍ) þar sem þar gildir kostnaðarskipting á milli liða.
Æfingar yngri flokkanna verða með hefðbundnu sniði um helgina og körfuboltaskólinn verður starfandi á sunnudaginn.