Domino´s deildin af stað aftur

Nú er Domino's deildin að fara af stað aftur eftir hléið sem var gert á henni vegna Stjörnuleiks KKÍ. Verkefni Tindastóls eru ærin á næstunni, þrír gríðarlega mikilvægir leikir gegn liðum sem eru á svipuðum slóðum í töflunni.

Fyrsti leikurinn eftir þetta hlé er á Ísafirði á föstudagskvöld. KFÍ er sem stendur í 10. sæti, tveimur stigum fyrir ofan okkar menn, sem sitja í því 11 með 6 stig.

Bæði þessi lið hafa gert breytingar á leikmannahópum sínum frá því þau áttust við í sigri KFÍ í október hér í Síkinu. KFÍ hefur endurnýjað allan erlenda leikmannaflota sinn og fengið til leiks sérdeilis magnaðan bakvörð, Damier Erik Pitts, sem leiðir deildina í stigaskori eins og er, með 31.6 stig og hefur að auki sent einar 7.3 stoðsendingar í leik. Tyrone Lorenzo Bradshaw er kominn undir körfuna og er farinn að láta vel til sín taka þar með 17.1 stig að meðaltali og ein 5.4 fráköst. Þá er Samuel Toluwase, sem er með breskt vegabréf, kominn í hópinn, en það er vinnuþjarkur sem skorir ekki mikið en er duglegur í vörn og fráköstum. Momcilo Latinovic sem slátraði okkar mönnum í fyrri leik liðanna er hins vegar fjarri góðu gamni ennþá, en hann þurfti frá að hverfa vegna fjölskylduaðstæðna. Þá hefur Hólmarinn Kristján Andrésson hafið leik að nýju eftir meiðsli í upphafi móts, en pilturinn sá er baneitruð þriggja stiga skytta.

Tindastóll hefur fengið bandaríska leikmanninn Roburt Sallie til liðs við sig og hefur hann sýnt lipra takta á æfingum og látið vel í sér heyra, hvatt menn áfram og leiðbeint og vonir standa til að hann geti styrkt liðið. Hann mun koma í stað Drew Gibson sem glímir við meiðsli.

Leikurinn verður sýndur á KFÍ-TV en strax á eftir honum munu unglingaflokkar þessara liða spila í Íslandsmótinu. Leikurinn verður einnig í beinni tölfræðilýsingu á kki.is.Stuðningsmenn ætla að hittast á Mælifelli og horfa saman á leikinn. Eins og áður renna 25% af veitingasölu í sjóði körfuknattleiksdeildar.

Næsti heimaleikur Tindastóls er gegn Fjölni föstudaginn 8. febrúar og tveimur dögum síðar spila strákarnir við Skallagrím í Borgarnesi. Það eru því þrír gríðarlega mikilvægir leikir framundan sem helst af öllu, verða allir að vinnast.