- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll og lið FSu mættust í Síkinu í kvöld í 12. umferð 1. deildar. Leikurinn varð talsvert meira spennandi en stuðningsmenn Tindastóls hefðu fyrirfram reiknað með og rétt á lokamínútunum sem Stólunum tókst að tryggja sigurinn. Lokatölur voru 93-83.
Báðum liðum gekk hörmulega við stigaskorið í byrjun leiks og skipti litlu hvort færin voru góð eða ekki. Menn voru að stela boltanum og missa klaufalega og fljótlega mátti ráða að einbeiting leikmanna, í það minnsta Tindastóls, væri ekki alveg í stakasta lagi. Kannski voru menn með hugann við stórleikinn í undanúrslitum bikarsins næstkomandi mánudag? Jafnt var á flestum tölum framan af leik en hjá Stólunum var það helst Proctor sem gat sett boltann í körfuna. Stólarnir voru með nauma forystu eftir fyrsta leikhluta en þeim gekk ekki mikið skár eftir hann. Menn náðu engum takti í leiki sinn og talsvert fór að bera á pirringi út í dómara leiksins. Þegar nokkuð var liðið á annan leikhluta náði FSu 8 stiga forystu, 27-35, en þá bitu Stólar á jaxla og náðu að komast yfir með það sama en allt var í járnum í hálfleik.
Gestirnir komu baráttuglaðir til leiks í síðari hálfleik og höfðu kannski áttað sig á að heimamenn voru ekki alveg rétt stemmdir og eygðu því sigurvon. Ekki skemmdi fyrir að þeir Hlynur Hreinsson, Erlendur Stefánsson og Colin Pryor fóru að hitta með miklum ágætum og í hvert skipti sem Stólarnir náðu að búa til smá bil þá komu gestirnir fílefldir til baka. Helgi Rafn, sem var ekki sjálfum sér líkur í kvöld, og Proctor komust í villuvandræð í þriðja leikhluta og var gott að það kviknaði á Helga Margeirs sem fór að drita niður þristum til að halda Stólunum inni í leiknum. Þegar um tvær mínútur voru eftir minnkaði Hlynur muninn í 83-80 en með öguðum leik í restina tókst Tindastólsmönnum að sigra með 10 stiga mun og innbyrða þar með 12 sigurinn í deildinni í 12 leikjum.
Stólarnir voru ekki sjálfum sér líkir í kvöld og leikmenn gerðu sig seka um alltof mikið af klaufalegum mistökum. Proctor skilaði 27 stigum og Helgi Margeirs 18 og þá var Flake seigur að venju. Ingvi átti ágæta spretti og Pétur sömuleiðis og þá sérstaklega í vörninni. Helgi Rafn spilar hinsvegar pottþétt betur á mánudagskvöld þegar ÍR kemur í heimsókn í Síkið.