- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll fékk lið Fjölnis í heimsókn í Síkið í kvöld í 1. deild karla í körfubolta. Liðin léku bæði í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en það var talsverður getumunur á liðunum í kvöld í nokkuð kaflaskiptum leik. Lokatölur urðu 109-75 fyrir Tindastól.
Stólarnir tóku öll völd í byrjun leiks en heimamenn voru komnir í 11-2 eftir eina og hálfa mínútu. Í stöðunni 19-8 datt Helgi Margeirs í stuð og gerði 11 stig á 90 sekúndum en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 36-14. Tindastólsmenn spiluðu fína vörn og þá gekk allt upp í sókninni en Fjölnismenn voru ekki í nokkrum takti. Leikurinn jafnaðist í öðrum leikhluta; gestirnir stigu upp í varnarleiknum en kæruleysisbragur kom á heimamenn. Staðan í hálfleik 54-36.
Tindastólsmenn náðu ekki að hrista af sér sliðruorðið í byrjun síðari hálfleiks og meiri harka hljóp í leikinn. Helgi Rafn var ósáttur við dómgæsluna, taldi brotið á sér í skotum sí og æ án þess að hann fengi nokkra samúð hjá dómaraparinu. Fjölnir náði að saxa á forskotið og komu muninum í 12 stig þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þá tók Pétur Birgis af skarið og dró liðið í gang. Flake og Helgi Margeirs settu niður góðar körfur og staðan 75-57 þegar fjórði leikhluti hófst. Nú virtist mesta kappið úr gestunum og fljótlega í leikhlutanum voru það að megninu til ungu drengirnir í Tindastólsliðinu sem fengu að njóta sín. Gaman var að sjá til Friðriks Stefánssonar sem er bæði eldsnöggur og með flotta boltatækni. Strákarnir sýndu frábær tilþrif og stuðningsmenn Tindastóls skemmtu sér konunglega. Lokatölur 109-75.
Pétur Birgis var frábær í leiknum; gerði 17 stig, tók 7 fráköst og spilaði hörku vörn. Helgi Margeirs var sömuleiðis í banastuði með 23 stig og þar af 5 3ja stiga körfur úr 10 tilraunum og áttu nokkrar gullsendingar. Friðrik Stefáns átti 5 stoðsendingar og stal fjórum boltum og spennandi leikmaður þar á ferð. Sigurður Stefáns sýndi líka flott tilþrif og setti niður 11 stig. Flake og Proctor voru traustir en Proctor átti í villuvandræðum snemma leiks. Helgi Rafn var seigur að vanda en sem fyrr segir ósáttur við meðferðina sem hann fékk.
Í liði gestanna voru Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson og Emil Þór
Jóhannesson seigir og gerðu báðir 13 stig en stigahæstur var Daron Lee Sims
gerði 16 stig og tók 12 fráköst. Frábær byrjun Tindastóls gerði gestunum afar
erfitt fyrir og áttu þeir í raun aldrei möguleika í leiknum.
Stig Tindastóls: Helgi Margeirs 23, Pétur Birgis 17, Helgi Rafn 16, Darrel Flake 16, Sigurður Stefáns 11, Antoine Proctor 9, Friðrik Stefáns 4, Finnbogi Björnsson 4, Viðar Ágústsson 4, Páll Bárðarson 3 og Ingvi Rafn Ingvarsson 2.