- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll tók á móti liði Grindavíkur í gærkvöldi í Dominos-deildinni í körfubolta. Stólarnir virkuðu hálf ráðalausir gegn sprækum gestunum sem höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn og unnu öruggan sigur, 84-94. Var þetta fyrsta tap Tindastóls í Síkinu í vetur og vonandi verða strákarnir fljótir að hrista vonbrigðin af sér.
Það varð ljóst strax í byrjun að Grindvíkingar ætluðu ekki að gefa Stólunum neitt að þessu sinni, voru sterkir fyrir í varnarleiknum og fráköstuðu grimmt undir körfu Stólanna framan af leik. Grindvíkingar komust í 0-7 en Stólarnir keyrðu upp hraðann og áttu nokkur gullfalleg hraðaupphlaup sem skiluðu körfum. Ingvi Rafn kom Stólunum yfir með þristi, 20-19, en Jón Axel svaraði að bragði. Staðan 22-25 að loknum fyrsta leikhluta. Tindastóll hóf annan leikhluta vel og Dempsey og Lewis komu liðinu í 30-27 og sennilega einhverjir í stúkunni leyft sér að hugsa að nú væru Stólarnir komnir í gang. Þetta reyndist hins vegar síðasta skiptið sem heimamenn höfðu forystuna í leiknum því gestirnir hertu enn á varnarleiknum og Stólarnir fóru að taka vond og erfið skot. Á fjórum mínútum breyttist staðan úr 30-27 í 34-44 og Grindvíkingar leiddu í hálfleik, 39-48.
Tindastólsmenn reyndu hvað þeir gátu að koma sér betur inn í leikinn í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn fljótlega í 48-52. Grindvíkingar áttu sjaldnast í miklu basli með vörn heimamanna og í hvert sinn sem Stólarnir minnkuðu muninn þá fylgdu sterkar körfur gestanna í kjölfarið. Þá var augljóst að Tindastólsmenn áttu ekki að fá að keyra upp hraðann og var því brotið á þeim í stað þess að gefa auðveldar körfur. Þetta heppnaðist ágætlega því vítanýting Stólanna var slök á þessum kafla og síðustu sex mínútur þriðja leikhluta virkuðu heimamenn ráðlausir, gerðu aðeins fimm stig og bilið jókst. Staðan varð 49-68 (1-16 kafli) en 15 stigum munaði fyrir fjórða fjórðung, 53-68. Í fjórða leikhluta ætluðu Stólarnir að ná í skottið á gestunum með 3ja stiga skotum og Helgi Margeirs setti strax niður eina slíka en honum hafði gengið bölvanlega fram að því, sá sjaldnast til körfu. Hittni Stólanna var hinsvegar ekki góð í gærkvöldi og næsta stóra karfa lét bíða eftir sér. Helgi setti þó niður tvær á lokamínútunni vel fyrir utan línu en það reyndist ekki nóg. Sverrir Sverris og lærisveinar hans í Grindavík fögnuðu því góðum tíu stiga sigri í Síkinu og voru vel að honum komnir.
Enginn leikmaður Tindastóls átti stjörnuleik í gær. Lewis var frekar mistækur þrátt fyrir að enda með 25 stig og gekk Stólunum óvenju illa að athafna sig undir körfu andstæðinganna. Þá hélst Grindvíkingum mun betur á boltanum en heimamönnum sem aldrei náðu upp almennilegri stemningu í vörninni. Það komu þó góðir kaflar inn á milli og þannig gerði Dempsey nokkrar laglegar körfur og Ingvi átti nokkrar magnaðar rispur framan af leik. Grindvíkingar spiluðu mjög vel í leiknum og nánast sama hver kom við sögu, allir skiluðu toppvinnu. Fimm leikmenn skiluðu meira en tíu stigum en stigahæstir voru Ólafur Ólafsson, Rodney Alexander og Jón Axel Guðmundsson.
Nú eru 19 umferðir að baki í Dominos-deildinni og er lið KR þegar orðið deildarmeistari en Vesturbæingar lögðu Borgnesinga í gær. Stólarnir þurfa einn sigur í síðustu þremur leikjunum til að gulltryggja annað sætið í deildinni. Næst leikur liðið gegn Snæfelli í Stykkishólmi þann 5. mars og sunnudaginn 8. mars kemur lið Hauka, sem hefur verið á mikilli siglingu, í heimsókn. Áfram Tindastóll!
Stig Tindastóls: Lewis 25, Dempsey 19/17 frk, Helgi Margeirs 13, Ingvi 9, Pétur 7, Flake 6, Helgi Viggós 3/9 frk. og Jónas Rafn 2.