- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastólsmenn héldu suður yfir heiðar í gær og heimsóttu Hauka í Hafnarfjörðinn í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Dominos-deildarinnar. Fyrri hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu og voru Stólarnir heldur beittari í sókninni og höfðu nauma forystu í hléi. Heimamenn komu hinsvegar einbeittir til leiks í síðari hálfleik og unnu að lokum nokkuð öruggan sigur, 73-61.
Það var hálfgert Skagfirðingakvöld að Ásvöllum í gærkvöldi og glöggir menn töldu að sennilega hefðu um 500 stuðningsmenn Tindastóls mætt til leiks en heimamenn voru talsvert færri. Liðin buðu upp á mikla varnarbaráttu allan leikinn en sóknarleikurinn var ekki til útflutnings. Jafnt var á flestum tölum framan af fyrsta leikhluta en Gurley gerði fimm stig fyrir Stólana á síðustu mínútunni og staðan því 14-19 að leikhlutanum loknum. Talsverðar tafir urðu á því að annar leikhluti hæfist þar sem stigataflan á Ásvöllum fór í verkfall. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta og lítið var skorað. Stólarnir náðu mest sjö stiga forystu, 20-27, en heimamenn klóruðu í bakkann fyrir hlé. Staðan 28-32.
Þrátt fyrir góð færi heimamanna voru skotin að klikka en það lagaðist í síðari hálfleik á meðan sóknarleikur Tindastóls var ekki að ganga upp. Haukarnir komust upp með að spila mjög fast og munaði miklu um að Lewis, Dempsey og Gurley voru alls ekki með á nótunum í liði Tindastóls. Stólarnir héldu forystunni fram yfir miðjan þriðja leikhluta en þá fóru 3ja stiga skot Haukanna að detta. Haukur Óskarsson jafnaði 40-40 á 26. mínútu og síðan gerðu heimamenn næstu sjö stig. Pétur setti niður þrist til að laga stöðuna en Kári Jónsson gerði tvö síðustu stigin í leikhlutanum. Staðan 49-43.
Haukar náðu tólf stiga forystu, 58-46, snemma í fjórða leikhluta og 63-50 þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir. Þá gerðu Pétur, Viðar og Dempsey þrjú stig hver og minnkuðu muninn í 63-59 en Haukur gaf Haukum andrými með þristi og eftir það var mesti mátturinn úr endurkomu Tindastólsmanna. Haukar juku bilið og lönduðu mikilvægum sigri og eru því komnir með forystu í einvígi liðanna.
Helgi Viggós var öflugastur í liði Tindastóls en fyrirliðinn gerði 18 stig og tók átta fráköst. Þá átti Pétur fínan leik með tólf stig, sex fráköst, átta stoðsendingar og þrjá stolna bolta. Sem fyrr segir þá áttu Lewis, Dempsey og Gurley slæman dag og samanlagt gerðu þeir aðeins 22 stig! Af þeim var Lewis með mesta framlagið eða sex. Það er því næsta víst að Stólarnir eiga mikið inni þegar Hafnfirðingar koma í heimsókn í Síkið nú á miðvikudaginn. Í raun voru tölur liðanna ansi svipaðar en mestu virðist hafa munað að um Stólarnir fengu á sig fleiri villur sem skiluðu sér í fleiri vítaskotum Hauka (18/7). Stólarnir höfðu naumlega betur í fráköstunum (44/46) en álíka mörg skot fóru niður í opnum leik en Stólarnir þurftu fleiri tilraunir.
Nú er ekkert annað í stöðunni fyrir Tindastól en að verja Síkið með kjafti og klóm og koma sér almennilega inn í einvígið með sterkum sigri nk. miðvikudagskvöld. Áfram Tindastóll!
Stig Hauka: Mobley 17, Haukur 14, Kári 13, Hjálmar 11, Emil 8, Finnur 6 og Kristinn 4.
Stig Tindastóls: Helgi Viggós 18, Pétur 12, Dempsey 8, Gurley 7, Lewis 7, Viðar 5, Svavar 2 og Ingvi 2.