- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það var flatt á flestum hjólum undir Tindastólsrútunni í kvöld þegar Stólarnir mættu baráttuglöðum Haukum í Síkinu. Ljóst var fyrir leik að með sigri væru Tindastólsmenn komnir í úrslitarimmuna um Íslandsmeistaratitilinn og sömuleiðis ljóst að Haukarnir urðu að sigra til að halda sér inni í einvíginu. Þessi staða virtist fara betur í gestina sem sýndu sparihliðarnar bæði í sókn og vörn og unnu öruggan sigur, 79-93.
Síkið var fullt af fólki í kvöld og hreinlega geggjuð stemning. Lewis fór vel af stað fyrir Stólana en það varð strax klárt að Haukarnir ætluðu ekki að gefa þumlung eftir. Allt annað var að sjá til Alex Francis sem var á tánum frá fyrstu mínútu og lét finna hraustlega fyrir sér og komst upp með það. Haukar náðu forystunni upp úr miðjum fyrsta leikhluta og þá forystu létu þeir aldrei af hendi.
Staðan í upphafi annars leikhluta var 17-24 og Emil Barja, sem var magnaður í leiknum í kvöld, setti niður þrist strax í byrjun og gestirnir komnir með tíu stiga forystu. Þá setti Helgi Margeirs niður tvo þrista og Dempsey bætti við tveimur stigum og munurinn tvö stig. Þessi sprettur Stólanna var stuttur og Haukar sigu framúr á ný. Ekki skemmdi það fyrir gestunum að það var nánast sama hvaða leikmaður tók skot, allt fór í. Barátta Haukanna varð til þess að Stólarnir voru sí og æ að taka erfið skot utan 3ja stiga línunnar sem fæst rötuðu rétta leið og nú voru Haukarnir grimmari undir körfunni. Staðan 40-50 í hálfleik og Haukarnir með 7 af 11 í 3ja stiga skotum.
Stuðningsmenn Stólanna vonuðust eftir að heimamenn næðu að rétta úr kútnum í þriðja leikhluta en það var öðru nær. Ekki var langt liðið þegar munurinn var orðinn tuttugu stig, 44-64, en þá náðu Stólarnir loks varnarleiknum í gang þannig að síðustu sex mínútur leikhlutans gerðu gestirnir aðeins fimm stig. Sóknarleikurinn var hins vegar stirður hjá Stólunum en tveir þristar frá Svavari og Dempsey minnkuðu muninn í tíu stig og gáfu fyrirheit um æsispennandi fjórða leikhluta. Staðan 59-69.
Stemningin var hins vegar í Haukaliðinu í kvöld. Þeir spiluðu langar en góðar sóknir í lokaleikhlutanum á meðan Tindastólsmenn fundu aldrei taktinn í sókninni. Svo virtist sem einbeiting leikmanna Tindastóls hafi ekki verið í lagi í kvöld, spennustigið kannski of hátt og menn komnir í úrslitarimmuna í huganum? Munurinn á liðunum var alla jafna 10-15 stig það sem eftir lifði leiks og á endanum fögnuðu Haukar sanngjörnum sigri, 79-83.
Það var fátt um fína drætti hjá Stólunum í kvöld. Lewis var atkvæðamestur með 19 stig og sjö fráköst en Dempsey komst lítt áleiðis gegn Francis en endaði þó með 17 stig en aðeins sex fráköst. Ingvi gerði 11 stig og Pétur var með 6 stoðsendingar. Nýting Stólanna í 3ja stiga skotum var 20% (6/30) en Haukarnir voru í 41% (9/22). Þá snéru gestirnir taflinu við í fráköstunum frá síðustu leikjum. Leikstjórnandi Hauka, Emil Barja, var frábær í liði gestanna í kvöld og endaði með 19 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar. Francis var með 18 stig og Haukur 17.
Nú gefst lítill tími til að hvíla mannskapinn því næsti leikur er á miðvikudag í Hafnarfirði og ef Haukarnir ná að jafna einvígið verður fimmti leikurinn á föstudag í Síkinu. Koma svo Stólar!
Stig Tindastóls: Lewis 19, Dempsey 17, Ingvi 11, Flake 11, Helgi Viggós 6, Helgi Margeirs 6, Pétur 5 og Svabbi 4.