- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það var spilað í Powerade-bikarkeppni KKÍ á Króknum í dag en í karlaflokki komu Sandgerðingar í heimsókn. Því miður var fátt um fína drætti í liði gestanna og leikurinn algjörlega óspennandi frá nánast fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Í liði heimamanna voru Helgarnir Viggós og Margeirs ómótstæðilegir og virtust skemmta sér hið besta þær mínútur sem þeir fengu að leika sér í 130-62 stórsigri.
Leikmenn Reynis héldu í við Stólana fyrstu þrjár mínúturnar en í stöðunni 12-9 skildu leiðir og heimamenn pressuðu ráðþrota gestina í kaf. Helgi Margeirs fann sparifjölina sína og skaut Sandgerðina í kaf en það var oftar en ekki sem Reynismönnum mistókst að koma boltanum yfir miðjuna og ódýrar körfur Stólanna fylgdu í kjölfarið. Gestirnir voru ekki í nokkru formi til að eiga við spræka Stóla en það er ekki oft sem maður hefur séð Bárð rúlla öllum mannskapnum í fyrsta leikhluta líkt og í dag – fyrir utan Flake sem var hafður á bekknum nánast upp á punt og kom ekki við sögu í leiknum.Staðan var 32-14 að loknum fyrsta leikhluta og ekki tók betra við hjá gestunum í öðrum leikhluta en hann endaði 45-12 og staðan því 77-26 í hálfleik.
Heldur hægðu heimamenn ferðina í síðari hálfleik, nema
kannski Helgi Viggós sem hreinlega valtaði yfir allt og alla en kappinn gerði
37 stig í dag, hirti 16 fráköst, þ.m.t. 7 í sókninni og þá stal hann 7 boltum
líkt og Pétur Birgis. Stólarnir tóku 63 fráköst gegn 46 gestanna og áttu 51 3ja
stiga skot en settu 15 niður en þar var Helgi Margeirs vaskastur með 6 í 10
tilraunum. Finnbogi Bjarna setti niður 3 þrista í 7 tilraunum en boltinn gekk
vel í sókninni og leikmenn Tindastóls í endalausum opnum færum allan leikinn.
Þriðji leikhluti vannst 26-13 en í fjórða leikhluta opnaðist aðeins fyrir
Reggie Dupree en hann hefur örugglega átt skemmtilegri stundir en í Síkinu í
dag. Lokatölur 130-62.
Stig Tindastóls: Helgi Viggós 37, Helgi Margeirs 22, Viðar
Ágústs 12, Finnbogi 11, Pétur Birgis 11, Proctor 10, Friðrik Stefáns 8, Sigurður
Stefáns 7, Páll Bárðar 5, Ingvi Ingvars 5 og Ingimar Jóns 2.