- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Hann var þunnur þrettándinn hjá Stólunum í kvöld þegar
Haukar mættu í Síkið. Þrátt fyrir gjörsamlega hörmulegar fyrstu 15 mínútur
leiksins þá tókst Tindastólsmönnum að vinna sig inn í leikinn með góðri
baráttu. Það dugði þó ekki til þar sem of margir leikmanna Stólanna áttu slæman
dag í sókninni og það voru því gestirnir sem unnu sanngjarnan sigur að þessu
sinni, lokatölur 64-72.
Það hefði mátt halda að gestirnir hefðu komið við í Gaulverjabæ á leiðinni á Krókinn og leikmenn fengið sér vænan slurk af ofurseyðinu góða. Þeir tættu Tindastólsmenn af sér, nýttu sóknir sínar vel og spiluðu hörku vörn. Stólarnir fóru reyndar illa með sín færi og það var hreinlega enginn í stuði. Eftir fimm mínútna leik var staðan 0-16 og stuðningsmenn Stólanna flestir farnir að klóra sér í höfðinu. Viðar gerði fyrstu körfu heimamanna með laglegu gegnumbroti en það var nánast gulltryggt að ef Tindastólsmenn gerðu körfu þá fylgdi annað hvort 3ja stiga karfa eða körfur í kjölfarið frá gestunum.
Nítján stigum munaði að loknum fyrsta leikhluta, 7-26, og þetta átti eftir að versna enda fjallgrimm vissa fyrir því að lengi getur vont versnað. Haukar, með Haukar Óskarsson og Stephen Madison í miklu skotstuði, komust í 11-37 þegar annar leikhluti var hálfnaður, en þá loksins dró af Hafnfirðingum og Stólarnir virtust vera búnir að fá nóg af þessu andleysi. Vörnin hrökk í gang og Darrel Flake fór í fluggírinn. Hann setti tíu stig fram að hléi og þar á meðal mikilvæga flautukörfu sem gaf Stólunum von. Hann tók ágætt 3ja stiga skot sem skoppaði af hringnum en Tindastólsmenn náðu að slá boltann til hans og aftur skaut kappinn, boltinn skoppaði tvisvar á hringnum, í spjaldið og lak svo hálf afsakandi oní. Staðan 26-40.
Þriðji leikhluti byrjaði með látum og liðin skiptust á um að skora. Haukur setti eina af fimm 3ja stiga körfum sínum niður og kom gestunum í 32-48. Pétur, sem átti ágætan leik, svaraði í sömu mynt og Stólarnir gerðu næstu átta stig og minnkuðu muninn í 43-48. Í stöðunni 48-50 áttu Tindastólsmenn svo loks tækifæri á að jafna leikinn, Lewis fékk upplagt færi eftir að hafa stolið boltanum en brást bogalistin undir körfu Haukanna og gestirnir bættu við bilið. Eftir að hafa sett mikinn kraft í að vinna upp muninn hefði sannarlega verið mikilvægt að fá aukastyrk með því að jafna leikinn og slá gestina út af laginu.
Eftir þetta náðu Stólarnir ekki að gera nógu kraftmikla atlögu að Haukum, munurinn yfirleitt þetta 5-10 stig. Helgi Margeirs hleypti þó aftur spennu í leikinn þegar rúm mínúta var eftir, skoraði þá eina 3ja stiga og aðra 2ja stiga á skömmum tíma og minnkaði muninn í 63-67. Haukarnir héldu þó út með skynsömum leik og Stólarnir gerðu of mörg mistök til nýta sér meðbyrinn í lokin.
Nýr leikmaður Tindastóls, Jerome Hill, hefur ekki heillað stuðningsmenn í þeim tveimur leikjum sem hann hefur spilað. Hann var þó stigahæstur með 12 stig líkt og Flake en tók 13 fráköst sem var vel gert. Pétur Bigga Rafns nýtti sín skot vel, gerði 11 stig og átti 5 stoðsendingar en tapaði boltanum sex sinnum líkt og Emil Barja hjá Haukum. Lewis átti ekki gott kvöld, var mistækur. Haukur Óskarsson átti frábæran leik hjá gestunum, gerði 22 stig og sömuleiðis voru Madison og Kári Jónsson öflugir.
Stig Tindastóls: Hill 12, Flake 12, Lewis 11, Pétur 11, Helgi Viggós 6, Helgi Margeirs 5, Arnþór 3, Viðar 3 og Svavar 1.