Króksamótið haldið um næstu helgi

Króksamótið í minnibolta verður haldið í íþróttahúsinu næstkomandi laugardag, þann 3. nóvember. Að þessu sinni má gera ráð fyrir um 120 þátttakendum, sem koma frá Tindastóli, Smáranum í Varmahlíð og Þór Akureyri.

Tindastóll mun tefla fram liðum í mótinu allt frá 1. bekk og upp í 6. bekk. Þjálfari minniboltans, Oddur Benediktsson, mun setja saman liðin og við birtum þau svo hér á heimasíðunni síðar í vikunni ástamt leikjaniðurröðun.

Það er FISK Seafood sem gefur þátttakendum boli og í mótslok fá allir þátttakendur heita máltíð áður en haldið verður heim á leið. Þátttökugjaldið er aðeins kr. 1.500.

Um miðbik mótsins verður troðslusýning frá leikmönnum meistaraflokks Tindastóls og hefur sá viðburður ávallt vakið mikla athygli. Búast má við því að George Valentine troði þar með tilþrifum og kannski vill hann troða yfir einhverja heppna krakka!

Nánari upplýsingar um mótið verða birtar síðar í vikunni.