LENGJUBIKARMEISTARAR 2012

Tindastóll sigrað Snæfell örugglega í úrslitaleik Lengjubikarsins 96-81 og eru því ákaflega verðskuldaðir Lengjubikarmeistarar 2012. Frábært bikarár að baki hjá Tindastól en það er því miður ekkert alltof algengt að Tindastóll kemst í tvo bikarúrslitaleiki á sama árinu. En sá fyrsti er kominn í hús, núna eru bara tveir eftir. Nú skulum við taka vel á móti strákunum þegar þeir koma með bikarinn heim, nefnilega á Mælifelli um kl. 23 í kvöld. ALLIR STUÐNINGSMENN HVATTIR TIL AÐ MÆTA.
Leikurinn sjálfur var frábært skemmtun. Eins og í leiknum í gær þá byrjuðu mótherjarnir betur meðan strákarnir voru að hita sig upp. Snæfellingar voru líka fullir sjálfstrausts eftir að hafa sigrað Grindvíkinga frekar sannfærandi í gærkvöldi og mættu með allar byssur vel hlaðnar til leiks. Í öðrum leikhluta hófu þeir síðan stórskotaárás þar sem Pálmi Sigurgeirs og Threatt röðuðu hverjum þristnum á fætur öðrum ofan og Snæfellingar náðu mest 10 stiga forskoti.

En Tindastóls menn gáfust ekki upp og héldu höfðinu hátt meðan árásin stóð yfir og náðu að spila sig aftur inn í leikinn. Í hálfleik var staðan 45-44 fyrir Snæfell og ótrúlegt afrek Tindastólsmanna að halda í við Snæfellingana. Í þriðja leikhluta mætti svo algjörlega stórkostlegt Tindastólslið til leiks. Varnarleikurinn small saman og það fór ekkert á milli mála hvort liðið vildi meira taka þessa dollu með sér heim. Niðurstaðan var sú að Snæfellingar skoruðu aðeins 14 stig í leikhlutanum meðan Tindastólsstigin voru 28. Einn besti leikhluti Tindastóls á þessu ári og jafnvel seinni ára.

Í fjórða leikhluta reyndu Snæfellingar allt til að laga stöðuna, settu í allskonar svæðispressur og hvaðeina en blóðið á tönnum Tindastólsstrákana var orðið allt of mikið og Snæfellingar hefðu getað reynt fram eftir vikunni, þeir hefðu aldrei náð muninum upp. Algjörlega frábær sigur í höfn.

Það er alveg merkilegt hvað Tindastóll á fáar dollur eftir að hafa verið fallegasti íþróttaklúbbur landsins í meira en hundrað ár þannig að þessi bikar er ákaflega vel þeginn og því verður 24. nóvember 2012 skráður rækilega í sögu Tindastóls.

Alveg eins og í gær þá voru allir strákarnir frábærir en Bárður rúllaði þessu á mörgum mönnum. Það verður þó aðeins að minnast á Þröst bróðir Gaua sem átti alveg magnaðan leik enda var hann kominn með 6 stig eftir tvær fyrstu sóknirnar sínar. Stigin enduðu í 27 og komu nokkur þeirra úr vítum í lokin þegar Snæfellingar voru í lokaáhlaupinu.

En frábær sigur og eins og sagði hérna að ofan, allir að mæta á Mælifell kl. 23:00 í kvöld og förum að byrja þetta party!!!

ÁFRAM TINDASTÓLL
BIO