16.09.2013
Síðastliðna helgi fór m.fl. kvenna í æfingaferð til Reykjavíkur sem endaði á æfingaleik gegn FSU.
Lagt var af stað um kaffileytið á föstudeginum þegar búið var að troða farangrinum í bílana (stelpurnar fengu smá pláss líka). Ferðin gekk vel fyrir sig fyrir utan smá töf í Norðurárdalnum þar sem að fé fyllti veginn. Það var þó alls ekki slæmt að lenda í rekstri þar sem að Tashawna hafði gaman að því að sjá þetta og fannst þetta heldur merkilegt.
Þegar í Vesturbæinn var komið var pöntuð pizza, komið sér fyrir og rölt í ísbúð Vesturbæjar þar sem þeytingur var vinsæll meðal stúlknanna.
Á laugardeginum voru tvær æfingar í KR-heimilinu, samtals í þrjá og hálfan tíma. Stelpurnar tóku vel á því og á milli æfinga fóru þær í smá útsýnisrúnt með Tashawna og sýndu henni m.a. Hallgrímskirkju. Um kvöldið fóru þær svo út að borða og í bíó og enduðu kvöldið á því að læra dans hjá þjálfaranum. Hann var víst ekki auðveldur og varð þeim á orði að þetta hafi í raun verið þriðja æfing dagsins.
Sunnudagurinn var tekinn snemma. Létt æfing í morgunsárið og svo var komið að rúsínunni í pylsuendanum þegar haldið var á Selfoss þar sem stelpurnar spiluðu æfingaleik gegn FSu. Leikurinn gekk vel og stelpurnar unnu. Tashawna lét liðið rúlla vel og allar stelpurnar fengu hlutverk í leiknum. Þær stóðu sig vel, börðust og léku þau kerfi sem æfð höfðu verið yfir helgina. Gaman var að sjá hversu hvetjandi þær voru fyrir hverja aðra og liðsandinn góður.
Að leik loknum var haldið heim á leið þar sem keppst var við tímann sökum veðurs, en við komumst öll heil heim. Þetta var mjög góð ferð sem efldi liðsandann til muna og gaf stelpunum tækifæri á að kynnast hvor annarri enn betur.
Ég vil þakka stelpunum fyrir góða ferð, Helgu systur minni fyrir sína aðstoð og Írisi og Sveini einnig.