Magnaður sigur á KR-ingum í kvöld

Tindastóll sótti sér frekar óvænt stig í Síkinu í kvöld gegn heitasta liði deildarinnar KR. Eftir mikla baráttu, góðar varnir beggja liða og æsispennandi lokamínútur, lönduðu heimamenn sanngjörnum sigri 72-67.

Því miður er enga tölfræði að hafa frá leiknum sem stendur, hún verður væntanlega tekin eftir myndbandi leiksins.

Strax í upphafi lögðu liðin grunninn að því sem koma skyldi, mikil barátta var frá fyrstu mínútu og varnarleikurinn í háveigum hafður. Hittni heimamanna var slök í fyrri hálfleik en þeir héldu sér á floti með mögnuðum varnarleik. Helgi Rafn fór fyrir sínum mönnum frá fyrstu mínútu og átti margar "skutlurnar" sem glöddu áhorfendur mikið.

Tindastóll var skrefinu á undan loka leikhlutann og sýndu menn mikinn andlegan styrk þegar KR-ingar gerðu harða atlögu að liðinu. Menn þéttu vörnina enn frekar og settu niður stór skot. Hreinn Gunnar kom Tindastóli í 70-67 með þriggja stiga körfu þegar fáar sekúndur lifiðu leiks og það var svo Drew Gibson sem pakkaði leiknum inn með tveimur vítum í lokin og lokastaðan 72-67.

Pétur Rúnar átti magnaðan leik og var ekki að sjá á honum að þar fari nýliði. Hann barðist eins og ljón og átti flottar stoðsendingar. Þröstur Leó kom sterkur af bekknum og eftir að hafa verið skugginn af sjálfum sér í síðasta leik, bætti hann heldur betur fyrir það í kvöld. Sá meiddi, Drew Gibson, var magnaður, setti ein 20 stig og stjórnaði leik liðsins vel. Þá kom Hreinn Gunnar heldur betur til skjalanna undir lokin og setti tvo mikilvæga þrista, eftir að hafa verið týndur fram að því. Helgi Rafn var ótrúlegur í fyrri hálfleik og hélt sínum mönnum sannarlega við efnið. George var óvenju hljóður í stigaskorun, en KR-ingar höfðu sérstakar gætur á honum og ávallt voru komnir tveir varnarmenn á vettvang þegar hann ógnaði körfunni. Hann stóð þó sína vakt í fráköstunum. Helgi Freyr var óheppinn í skotum sínum en spilaði fantavörn.

Fyrst og síðast afar sterk liðsheild í kvöld, strákarnir sýndu hvað í þeim býr og börðust eins og ljón. Varnarleikurinn var einn sá besti sem sést hefur á fjölunum í háa herrans tíð og á meðan hann er í lagi, þarf ekkert að skora neitt mjög mörg stig til að landa sigri.

Dómarar kvöldsins áttu mjög góðan leik og ber að hrósa þeim fyrir sitt framlag. Þetta voru þeir Kristinn Óskarsson, Ísak Ernir Kristinsson, Jakob Arni Isleifsson.

Stigaskor kvöldsins var svona:

Tindastóll: Drew Gibson 20, George Valentine, Þröstur Leó Jóhannsson 15, Helgi Rafn Viggóss 9, Hreinn Gunnar Birgisson 6, Helgi Freyr Margeirsson 5 og Pétur Rúnar Birgisson 2.

KR: Brynjar Þór Björnsson 25, Kristófer Acox 17, Finnur Atli Magnússon 13, Darshawn McClellan 4, Martin Hermannsson 4 og Brandon Richardson .

Með sigrinum komst liðið úr botnsætinu, er núna í því 11. með 6 stig, aðeins 2 stigum frá KFÍ og Skallagrími.