Meistararnir úr leik í Lengjunni þrátt fyrir stórsigur á Val

Tindastólsmenn léku Valsmenn illa í Vodafonehöllinni í gærkvöldi þegar liðin mættust í síðustu umferð í riðlakeppni Lengjubikarsins. Þrátt fyrir það komust Stólarnir ekki í úrslitakeppnina því Grindvíkingar völtuðu á sama tíma yfir granna sína í Keflavík og enduðu Suðurnesjaliðin í tveimur efstu sætum riðilsins.

Í stuttu máli þá höfðu Tindastólsmenn talsverða yfirburði yfir efstu deildar liði Vals og unnu alla leikhlutana sem í boði voru. Valsmenn voru yfir í tvær mínútur í byrjun leiks en síðan tóku Stólarnir yfir og voru níu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 18-27 en það voru Viðar Ágústs, Darrel Flake og Helgi Rafn sem voru sjóðheitir hjá Stólunum. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en heimamenn í Val náðu að koma muninum niður í 5 stig, 28-33, en Darrel Flake tók þá til sinna ráða og raðaði niður körfum fyrir Stólana fram að hléi. Staðan í leikhléi 40-51.

Proctor og Pétur komu sterkir inn í síðari hálfleik og eftir fjórar mínútur var staðan orðin 43-67 en fram að fjórða leikhluta héldu Valsarar í horfinu og 20 stigum munaði á liðunum, staðan 58-78. Valsmenn gerðu fyrstu körfu fjórða leikhluta en Ingvi Rafn skellti í þrist og eftir það jókst munurinn og Stólarnir sigldu heim öruggum 31 stigs sigri. Lokatölur 76-107.

Antoine Proctor og Darrel Flake voru sterkir í gær og kláraði Proctor leikinn með 27 stig og fjórar stoðsendingar en Flake var með 24 stig og fimm stolna bolta. Helgi Rafn tók flest fráköst eða tíu stykki.

Sem fyrr segir dugðu þrír sigrar Tindastóls í riðlakeppninni ekki til að komast áfram í Lengjubikarnum að þessu sinni. Keflvíkingar, sem virtust hafa á að skipa langsterkasta liðinu í riðlinum, mættu varla til leiks gegn Grindvíkingum og voru undir 55-22 í hálfleik og töpuðu síðan 99-82. Hvað er það?

Stig Tindastóls: Proctor 28, Flake 24, Viðar 10, Friðrik 10, Pétur 10, Helgi Rafn 8, Helgi Freyr 7, Ingvi Rafn 6, Páll 3 og Hannes 2.