Naumt tap í Grindavík, næsti leikur heima á móti Val

Tindastólsmenn töpuðu naumlega í  Grindavík í æsispennandi leik í tvíframlengdum leik í gærkvöldi. Leikurinn var nokkuð jafn framan að en þegar fjórar mínútur voru eftir af fjórða leikhluta voru okkar menn 11 stigum undir og útlitið ekki bjart. En Tindastólsmenn rifu sig upp og náðu að knýja fram framlengingu. Fimmti leikhlutinn var afar spennandi og fór svo að aðra framlengingu þurfti til að skera úr um sigurvegarana og fór svo að Grindavík vann leikinn með einu stigi, 109-108. 
Okkar menn fóru mikinn og má meðal annars nefna að Helgi Rafn átti stórleik með 38 stig skoruð og var með samtals 35 framlagsstig og Antoine Proctor setti niður 30 stig. Strákarnir voru frábærir í þessum leik og sýndu svo sannarlega hvað í þeim býr. Ljóst er að veturinn framundan verður skemmtilegur ef heldur áfram sem horfir!

Næsti leikurinn í Lengjubikarnum verður spilaður á móti Val á miðvikudaginn, 18. september kl.19.15 hér heima. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta og styðja við bakið á okkur mönnum.

Áfram Tindastóll!!