- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Hann var æsispennandi annar leikurinn í einvígi Tindastóls og Hauka sem fór fram í Síkinu í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Haukarnir höfðu unnið fyrsta leik liðanna í Hafnarfirði og sóttu hart að sigri í Síkinu. Þegar leið á leikinn snéru Stólarnir vörn í sókn og fóru loks með nauman sigur af hólmi, 69-68.
Samkvæmt leiklýsingu karfan.is byrjaði leikurinn ekki vel og sóknarleikur heimamanna var í molum. Costa, þjálfari Stólanna, byrjaði með lágvaxið lið og Gurley inná en það var alls ekki að virka. Finnur kom Haukum í 2-11 áður en Dempsey kom inná og eftir það jafnaðist leikurinn aðeins. Haukarnir leiddu eftir fyrsta fjórðung, 13-18. Haukar voru ekki að hitta vel fyrir utan og það bjargaði þónokkru fyrir heimamenn sem greinilega höfðu lagt upp með að stöðva þriggja stiga skyttur Haukanna.
Lengst af hélst munurinn um 5-7 stig á milli liðanna í öðrum fjórðung. Slæm hittni liðanna hélt áfram. Kári Jóns hafði komið Haukunum í 22-31 þegar tæpar þrjár mínútur voru til hálfleiks settu heimamenn hnefann í borðið. Þá settu Ingvi Rafn og Viðar niður þrista og Stólarnir sýndu frábærann varnarleik höfðu þeir forystu í leikhléi, 35-33. Allt varð brjálað í Síkinu.
Barningurinn hélt áfram í þriðja leikhluta en heimamenn voru þó lengst af skrefinu á undan. Haukarnir voru ákveðnir í að missa Stólana ekki frá sér og voru og Mobley og Finnur heimamönnum erfiðir undir körfunni. Emil Barja kom Haukum yfir með þrist þegar tæp mínúta var eftir af fjórðungnum, 53-55.
Baráttan var í algleymingi hjá báðum liðum í lokafjórðungnum og ekki gefin tomma eftir. Þegar staðan var 64-64, og innan við tvær mínútur eftir, skora Finnur og Mobley auðveldar körfur og koma Haukum fjórum stigum yfir. Þá héldu margir heimamenn að þetta væri búið. Lewis setti niður erfitt skot undir körfunni og minnkaði muninn í tvö stig, einungis 50 sekúndur eftir. Þá tók Pétur Rúnar Birgisson til sinna ráða, stal boltanum af Haukum í næstu sókn og fékk tvö víti þegar hálf mínúta var eftir. Pétur setti annað vítið niður og Haukarnir fengu boltann. Kári Jóns rann undir körfunni og missti boltann þegar fjórtán sekúndur eru eftir, Stólarnir brunuðu fram og Pétur renndi sér gegnum Haukavörnina, framhjá Mobley og skoraði 69-68. Haukarnir fengu séns á að vinna leikinn, höfðu boltann þegar átta sekúndur voru eftir en Finnur klikkaði á lokaskotinu og sigur heimamanna var staðreynd.
Pétur Rúnar, Viðar og Ingvi voru öflugir hjá heimamönnum og stigu upp þegar á þurfti að halda og Dempsey bætti við með tröllatvennu 17 stig og 11 fráköst. Hjá Haukunum voru Kári Finnur og Mobley öflugir en aðrir áttu erfitt.
Næsti leikur Tindastóls við Hauka verður nk. laugardag kl. 17:00. Staðan eftir tvo leiki er 1-1 og má búast við enn einum naglbít á milli þessara liða. Engar afsakanir teknar gildar að mæta ekki í Hafnarfjörðinn og ganga alla leið með strákunum í þessari baráttu.
Flottar myndir frá leiknum má skoða á Facebook-síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls.
Stig Tindastóls: Dempsey 17, Viðar 17, Ingvi 13, Pétur 7, Lewis 11 og Helgi Rafn 4.
Stig Hauka: Kári 18, Mobley 17, Finnur 13, Emil 8, Haukur 7, Hjálmar 3 og Kristinn 2.