- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Keflvíkingar komu í heimsókn á Krókinn í kvöld og léku við
Tindastól í Lengjubikarnum í körfunni. Leikurinn var ágæt skemmtun framan af
leik en gestirnir völtuðu yfir okkar menn í þriðja leikhluta og unnu
sanngjarnan sigur, 68-92.
Lið Keflavíkur er vel mannað og breiddin og reynslan mun meiri en hjá Stólunum. Þá er talsverður hæðarmunur á liðunum og gerði það Stólunum erfitt fyrir að sækja inn í teiginn. Engu að síður var gaman að sjá til Tindastólsmanna framan af leik og áttu þeir þá í fullu tré við gestina. Stigin voru að koma úr öllum áttum og strákarnir leystu pressu Keflvíkinga laglega og geisluðu af sjálfstrausti. Keflvíkingar leiddu 23-19 að loknum fyrsta leikhluta og það var allt í járnum framan af öðrum leikhluta, staðan jöfn 25-25 um hann miðjan, en Keflvíkingar náðu upp góðri vörn síðustu mínútur hálfleiksins og leiddu 47-39 í leikhléi.
Þessi þrusu svæðisvörn Keflvíkinga hélt áfram í þriðja leikhluta og sóknarleikur Stólanna fór út um víðan völl og hver mistökin ráku önnur. Á þremur og hálfri mínútu breyttu gestirnir stöðunni úr 43-47 í 43-70 – semsagt 23-0 kafli takk fyrir! Það er auðvitað óþarfi að nefna það en þegar þarna var komið sögu gerðu Keflvíkingar það sem þá langaði til. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 52-76 en fjórði leikhluti var nánast formsatriði og mikið til spilaður af bekkjum liðanna. Lokatölur 68-92.
Stigahæstur í kvöld var Helgi Rafn með 16 stig og hann reif niður flest fráköst Tindastólsmanna, átta stykki, en Helgi og Flake lentu nánast á vegg inni í teig Keflvíkinga og áttu erfitt uppdráttar þegar gestirnir náðu sínum frábæra kafla. Flake og Proctor voru í raun lítið notaðir í kvöld, spilu báðir rétt um 22-23 mínútur. Pétur Rúnar sýndi ágæta takta. Darrel Lewis var góður í liði Keflavíkur með 24 stig og þá var kunningi okkar Þröstur Leó seigur með 17 stig, þar af fimm 3ja stiga körfur úr 5 tilraunum.
Stig Tindastóls: Helgi Rafn 16, Proctor 14, Pétur Rúnar 12,
Ingvi Rafn 11, Flake 8, Helgi Freyr 5 og Ingimar 2.
Stig Keflvíkinga: Lewis 24, Þröstur Leó 17, Craion 14,
Guðmundur 13, Gunnar 11, Valur 11, Hafliði 2.