- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Jafnræði var með liðunum framan af leik og voru Halldór Jónsson og Danero Thomas að gera vel fyrir Hamar. Flake og Proctor voru drjúgir fyrstu mínúturnar en um miðjan hálfleikinn kom Friðrik Stefáns inn á og hann var snöggur að láta til sín taka og gerði níu stig í fyrsta leikhluta sem Stólarnir enduðu vel og voru yfir 29-23 að honum loknum. Liðin voru lengi í gang í öðrum leikhluta en Stólarnir voru að spila góða vörn á Thomas sem komst lítið áleiðis. Þegar sex mínútur voru liðnar var staðan orðin 51-30 og undir lok hálfleiksins gerðu Friðrik og Helgi Margeirs hvor sína 3ja stiga körfuna og staðan í hálfleik 61-35.
Tindastólsmenn pressuðu Hamarsmenn hátt á völlinn í þriðja leikhluta og unnu boltann auðveldlega hvað eftir annað og gengu á lagið þegar Danero Thomas snéri sig snemma í þriðja leikhluta. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan orðin 82-41 og skömmu síðar fékk Oddur Benediktsson, þjálfari Hamars, dæmdar á sig tvær tæknivillur þegar hann missti stjórn á skapi sínu á bekknum og hrópaði Goddamit í átt að öðrum dómara leiksins með tilheyrandi látbragði og var rekinn úr húsi. Eftir þetta skánaði leikur Hamars frekar en hitt en tilþrif leiksins átti síðan Viðar Ágústsson þegar hann fékk boltann rétt aftan við miðju þegar sekúnda var eftir af þriðja leikhluta, hann náði að grípa boltann og skjóta á körfu gestanna og beint oní. Staðan 96-53. Í fjórða leikhluta var líkt og boltinn væri sápustykki í höndum leikmanna Tindastóls sem aldrei náðu takti síðustu 10 mínútur leiksins og náðu gestirnir að saxa á forskot heimamanna en leikurinn endaði sem fyrr segir 105-73.
Stólarnir spiluðu glimrandi vel í öðrum og þriðja leikhluta og var nánast sama hver var inná, flest gekk upp á þessum kafla. Friðrik Stefáns gladdi augað og skaut af miklu sjálfsöryggi og endaði með 17 stig líkt og Proctor og Flake en stigahæstur var Helgi Rafn með 18 stig og klikkaða pressuvörn – þeir sem mættu honum í Tarzanleik í denn hljóta enn að vera með martraðir! Þá átti Ingvi Rafn góðan leik en hann setti niður 13 stig og hirti fjögur sóknarfráköst. Þá gladdi það stuðningsmenn Tindastóls að sjá Króksarann Ingva Guðmundsson Jenssonar mæta til leiks og sýna góða takta og setti kappinn niður síðustu körfu leiksins af miklu öryggi.
Stig Tindastóls: Helgi Rafn 18, Proctor 17, Flake 17, Friðrik 17, Ingvi Rafn 13, Helgi Margeirs 11, Viðar 8 og Pétur 5.