- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það var hörkuleikur í Síkinu í kvöld þegar bikarmeistararnir í Grindavík mættu Tindastólsmönnum í 16 liða úrslitum Powerade-bikarsins í körfubolta. Leikurinn var allan tímann hraður og jafn og liðin voru ekkert að spara kraftana. Heimamenn reyndust hinsvegar sterkari á síðustu mínútunum og fögnuðu frábærum sigri, 110-92.
Liðin skiptust á um að hafa forystuna í fyrsta leikhluta. Stólarnir komust í 14-9 en þá vöknuðu 3ja stiga skyttur Grindvíkinga til lífsins og hver er ekki 3ja stiga skytta í því liði? Þeir breyttu stöðunni í 18-25 en Dempsey, sem var frábær í liði Tindastóls, gerði fjögur síðustu stig fjórðungsins og staðan 22-25. Stólarnir voru feykna sterkir í öðrum leikhluta og það var helst áframhaldandi ágæt hittni gestanna og góður leikur Rodney Alexanders sem hélt þeim inni í leiknum. Nokkur glæsileg tilþrif sáust hjá Tindastólsmönnum og eitt allei-úpp hjá Dempsey var hrein perla. Liðin skiptust á um að hafa forystuna og munurinn sjaldnast nema 1-3 stig en Stólarnir náðu upp frábærri vörn undir lok fyrri hálfleiks og náðu sjö stiga forskoti, 57-50.
Þriðja leikhluta hóf Tindastóll
vel og komust fljótlega 14 stigum yfir, 68-54.
Sverrir þjálfari Grindvíkinga tók þá leikhlé og gestirnir komu grimmir
til baka og minnkuðu muninn í eitt stig, 68-67, á tveimur mínútum, Þá tóku
heimamenn við sér og náðu aftur yfirhöndinni og voru yfir, 82-77, fyrir
lokafjórðunginn. Snemma í fjórðungnum varð að stöðva leik þegar Rodney
Alexander kastaði upp á miðjum vellinum og yfirgaf svæðið til að jafna sig og
kom fljótlega aftur til leiks. Darrel Lewis setti niður tvær 3ja stiga körfur á
þessum tíma og Stólarnir náðu 10 stiga forystu og fóru síðan á miklum kostum
það sem eftir lifði leiks. Hvað eftir annað áttu gestirnir í vandræðum með að
koma boltanum upp völlinn og þurftu að taka erfið skot. Á endanum vannst því
góður og verðskuldaður 18 stiga sigur, 110-92.
Enn og aftur fór Myron Dempsey á kostum í leik Tindastóls og er sennilega einhver alflottasti íþróttamaður sem flogið hefur um Síkið fyrir lið Tindastóls í langan tíma – vantar eiginlega ekkert nema skikkjuna. Kappinn var með 30 stig, 13 fráköst og fjóra stolna bolta í kvöld, magnaður bæði í vörn og sókn. Ekki var Darrel Lewis mikið síðri þó ekki sé hann kannski ekki svífandi um loftið, hann gerði 25 stig og stal 6 boltum. Helgi Viggós var í miklu stuði í kvöld og gerði 18 stig, tók 11 fráköst og átti fimm stoðsendingar. Helgi Margeirs breyttist reyndar á köflum í nafna sinn og var farinn að skutla sér út í loftið á eftir lausum boltum og gerði 14 stig. Líkt og í síðasta leik þá skiluðu allir leikmenn sem við sögu komu sínu vel.
Í liði Grindavíkur var Rodney Alexander mjög öflugur með 32 stig og 10 fráköst. Ólafur Ólafsson var góður og Maggi Gunn setti 17 stig en það gladdi þó stuðningsmenn Stólanna í kvöld að nýtingin hjá honum hefur oft verið betri.
Stig Tindastóls: Dempsey 30, Lewis 25, Helgi Viggós 18, Helgi Margeirs 14, Pétur 13, Svabbi 6, Ingvi 2 og Sigurður 2.