- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það var ekkert annað í boði en háspenna lífshætta í Síkinu í kvöld þegar ósigraðir KR-ingar mættu liði Tindastóls. Það var stál í stál allan leikinn og áhorfendur stóðu hreinlega á öndinni síðustu mínúturnar. Það er skemmst frá því að segja að KR-ingar voru ekki lengur ósigraðir þegar leik lauk því Tindastóll hafði betur, 81-78.
Það var frábær mæting í Síkið og hörku stemning. Leikmenn voru þó nokkurn tíma að finna taktinn í sókninni enda var spennustigið hátt og varnarleikurinn í raun í fyrirrúmi nánast allan leikinn. Liðin skiptust á um að hafa forystuna en það var Helgi Margeirs sem að sá til þess að Stólarnir leiddu eftir fyrsta fjórðung, kappinn gerði átta stig í röð undir lokin og þar af tvo skrautlega þrista. Áfram börðust liðin í öðrum fjórðungi. KR komst í 22-26 en bæði lið gerðu helling af mistökum. Lewis gekk afleitlega að spóla sig gegnum vörn gestanna en Dempsey og Flake voru seigari. Stólarnir kláruðu annan leikhluta vel líkt og þann fyrri, gerðu sex síðustu stigin og leiddu í hálfleik, 36-32.
Stólarnir voru með frumkvæðið í þriðja leikhluta og voru yfir allan tímann, munurinn yfirleitt 2-7 stig. Helgi Viggós meiddist um miðjan leikhlutann, í stöðunni 43-39, og varð að fara af velli en virtist ekki ætla að láta einhver meiðsli beygja sig. Heimamenn voru þó ekkert að gefa eftir og léku vel á þessum kafla og Ingvi Ingvars setti niður þrist þegar ein og half mínúta lifði af leikhlutanum og munurinn átta stig, 53-45 og þegar leikhlutanum lauk var staðan 57-48 og heimamenn í góðum málum.
Pétur Birgis, sem hafði verið ískaldur í skotunum sínum í þrjá leiki, setti niður rándýran þrist í byrjun fjóða leikhluta og nú jókst hraðinn í leiknum. Helgi Már og Pavel fóru að hitta eins og vitleysingar og spennan jókst og jókst. Pétur setti annan þrist og í þetta skiptið fáránlegan og staðan 69-60, en þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var munurinn orðinn þrjú stig, 71-68. Nú var nánast slegist um alla bolta, leikmenn voru að missa boltann og stundum vantaði upp á skynsemina. En það var allt gefið í leikinn og bæði lið ætluðu sér sigur. Finnur Atli fór út af meiddur þegar fjórar mínútur voru eftir en KR jafnaði 76-76 þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Argh!
Ekkert var skorað í næstum sóknum en Michael Craion stal boltanum af Pétri þegar mínúta var eftir og kom gestunum yfir. Nú voru áhorfendur staðnir á fætur og spennan áþreifanleg. Lewis skilaði tveimur stigum til baka þegar hálf mínúta var eftir og fiskaði villu í leiðinni, setti vítið niður og kom Stólunum aftur yfir, 79-78. KR fékk tækifæri til að komast yfir en skot Darra úr hægra horninu fór ekki niður og Flake náði frákastinu. KR-ingar settu Pétur á vítalínuna þegar um 10 sekúndur voru eftir af leiknum og hann setti bæði skotin niður, KR brunaði í sókn en 3ja stiga skot Pavels, til að jafna leikinn, fór ekki í körfuna og það var Dempsey sem náði frákastinu og leiktíminn rann út. Lokatölur 81-78 fyrir Tindastól og allt vitlaust!
Bæði lið voru sterk í kvöld en KR-ingar, sem venjulega eru þrælseigir utan 3ja stiga línunnar, voru ekki að hitta vel fyrir utan. Stólarnir reyndu meira að fara inn í teiginn en það sem einkenndi leikinn var fjöldi tapaðra bolta og þar klikkuðu KR-ingar oftar en Stólarnir og reyndist þeim dýrkeypt á endanum. Hjá Tindastóli var Dempsey stigahæstur með 24 stig og hann tók sjö fráköst. Lewis var með 15 stig og Flake setti 11 og hirti níu fráköst. Craion var óhemju sterkur hjá KR, gerði 17 stig og tók 14 fráköst og þá var Helgi Már öflugur.
Í leikslok sýndu KR-ingar klassa og þökkuðu áhorfendum fyrir leikinn með lófataki um leið og Tindastólsmenn, sem fögnuðu því að auki að verða fyrst liða til að leggja Íslandsmeistarana í parket. Tinda-Tinda-Tindastóll!
Stig Tindastóls: Dempsey 24, Lewis 15, Flake 11, Pétur 9, Helgi Margeirs 8, Helgi Viggós 7 og Ingvi 7.