- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Heimamenn í Hamri gerðu fyrstu stigin en Stólarnir náðu fljótlega yfirhöndinni en það var Hvergerðingar sem enduðu fyrsta leikhluta betur og voru tveimur stigum yfir að honum loknum, 21-19. Hamrar komust í 26-23 í byrjun annars leikhluta en þá kom góður kafli hjá Stólunum sem gerðu 10 stig á næstu þremur mínútum án þess að heimamenn svöruðu. Sigurður Páll gerði þar 5 stig, Pétur 2 og Flake 3 og staðan orðin 26-33. Tindastólsmenn vörðust vel á þessum kafla og heimamönnum komust lítt áleiðis. Staðan 31-41 í hálfleik.
Stólarnir héldu áfram að herða tökin á leiknum í þriðja leikhluta og ekki voru það góðar fréttir fyrir heimamenn að Helgi Margeirs fann fjölina sína og gerði 12 stig í leikhlutanum, þar af þrjár 3ja stiga körfur. Tuttugu stigum munaði á liðunum fyrir fjórða leikhluta og voru heimamenn aldrei í séns með að ná muninum niður svo nokkru næmi, minnstur varð hann 15 stig í stöðunni 58-73. Í kjölfarið fylgdi 3ja stiga karfa frá Helga Margeirs og þar með var botninn úr endurreisn Hamars og Stólarnir sigldu enn einum öruggum sigri í höfn.
Stigahæstur í liði Tindastóls var Antoine Proctor með 21 stig en hann hirti einnig níu varnarfráköst. Ellefu af stigum Proctors voru af vítalínunni. Þá var Flake öflugur með 20 stig og 11 fráköst og Helgi Margeirs var með 19 stig. Tindastóll gerði 32 stig úr vítum í 42 tilraunum en heimamenn fengu aðeins 20 víti og skoruðu úr 14. Stigahæstur heimamanna í Hamri var Danero Thomas sem gerði 25 stig
Föstudaginn 22. nóvember mæta Stólarnir ÍA í Síkinu en Skagamenn hafa farið ágætlega af stað, aðeins tapað fyrir Þór á Akureyri, en Þórsarar eru líkt og Stólarnir taplausir í 1. deildinni. Akureyringar koma í Síkið um miðjan desember.
Stig Tindastóls: Proctor 21, Flake 20, Helgi Margeirs 19, Helgi Viggós 13, Pétur 9, Sigurður 5, Páll 3 og Ingvi Rafn og Ingimar 2 hvor.