- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Úrslitakeppnin í körfunni hófst í gærkvöldi með tveimur leikjum. Íslandsmeistarar KR unnu öruggan sigur á Grindvíkingum í Vesturbænum en í Sláturhúsinu í Keflavík voru Tindastólsmenn mættir ásamt fjölmennu fylgdarliði og öttu kappi við heimamenn í hressilegum leik. Stólarnir tóku forystuna snemma leiks og héldu henni allt til leiksloka en spennan var í hámarki undir lokin þegar heimamenn gerðu ágæta atlögu að Stólunum. Steig þá upp Darrel Lewis og lokaði leiknum. Lokatölur 90-100 og lið Tindastóls komið með undirtökin í einvígi liðanna.
Fyrirfram hefur verið gert ráð fyrir að rimma Keflavíkur og Tindastóls verði skemmtileg og spennandi. Þar sem að Keflvíkingar hafa heimavallarréttinn var ljóst að Stólarnir yrðu að vinna í það minnsta einn leik í Keflavík og vinna sína heimaleiki til að komast áfram. Sigra þarf í þremur leikjum til að komast áfram í undanúrslitin. Sigurinn í gærkvöldi var því gulls í gildi fyrir Tindastólsmenn sem þurfa þó að koma sér strax niður á jörðina og verja heimavöllinn með kjafti og klóm því Keflvíkingar koma án efa dýrvitlausir til leiks á sunnudaginn þegar þeir mæta í Síkið.
Byrjunarlið Tindastóls var skipað Dempsey, Pétri, Viðari, Lewis og Helga Viggós. Keflvíkingar fóru vel af stað og Reggie Dupree, sem var stigahæstur heimamanna í leiknum, setti strax niður þrist og tvist en Dempsey svaraði jafnóðum á sömu leið. Síðan náðu Stólarnir undirtökunum og í kjölfar óíþróttamannslegrar villu Jerome Lewis kom Dempsey, sem gerði 31 stig í leiknum, Stólunum í 11-18. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 21-29 fyrir Tindastól.
Keflvíkingar hentu í pressuvörn í byrjun annars leikhluta en Stólarnir létu hana ekki slá sig út af laginu. Tveir þristar í röð frá Gurley breyttu stöðunni úr 28-34 í 28-40 en Keflvíkingar börðust af krafti og komu sér aftur í seilingarfjarlægð frá Stólunum þegar fyrrum Króksarinn Valur Valsson minnkaði muninn í 39-44 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Tindastólsmenn voru yfirleitt með fjögurra til átta stiga forskot fram að hléi og í hálfleik var staðan 48-54 og var Dempsey þá kominn með 21 stig.
Pétur Birgis, sem var stórgóður í leiknum, setti niður fyrstu körfu þriðja leikhluta og um miðjan leikhlutann setti hann niður tvö víti og kom Stólunum í 52-66 og útlitið ansi gott fyrir gestina. Keflvíkingar höfðu á þessum tíma skipt yfir í svæðisvörn en allt kom fyrir ekki – Tindastólsmenn leistu flest vandamálin sem heimamenn hentu að þeim. Það var helst að Keflvíkingar sjálfir réðu ekki við spennuna og þeir voru talsvert í þeim pakkanum að reyna að fiska villur á Tindastólsmenn. Þeir fengu lítið jákvætt út úr þeim trakteringum en uppskáru helst tæknivíti fyrir annað hvort leikaraskap eða kjaftbrúk. Maggi Gunn var því sendur í bað upp úr miðjum þriðja leikhluta eftir að hafa brotið á Helga Margeirs og látið síðan vel valin orð fylgja í kjölfarið. Jerome Hill var einnig nokkuð æstur og var kominn með fjórar villur snemma í leikhlutanum. Hann fékk yfirhalningu frá Sigga Ingimundar, þjálfara Keflvíkinga, sem varð að kæla kappann góða stund á bekknum. Allt virtist þetta vatn á myllu Stólanna en Keflvíkingar klóruðu í bakkann og staðan 69-79 þegar loka leikhlutinn hófst.
Gurley setti tvær körfur í upphafi en þá komu níu stig í röð frá heimamönnum, staðan 78-83, og rúmar sjö mínútur til leiksloka. Helgi Margeirs skellti þá í þrist til að létta pressunni á Stólana sem reyndu nú að herða á vörninni til að gera Keflvíkingum erfiðara fyrir. Aftur komu heimamenn og þegar þrjár og hálf mínúta var eftir gerði Guðmundur Jónsson 3ja stiga körfu og skömmu síðar nýtti Hill eitt víti og staðan orðin 85-88. Nú var gamli góði suðupunkturinn genginn aftur og hafði með sér hana æsispennu. Gurley setti tvö fyrir Tindastól og eftir að Svabbi varði skot fengu Stólarnir ævintýralega sókn þar sem þeir tóku fjögur ágæt skot en niður vildi boltinn ekki. Reggie Dupree óð síðan upp völlinn og setti þrist og nú munaði aðeins tveimur stigum, staðan 88-90. Þá var Lewis nóg boðið og hann svaraði í sömu mynt með frábæru skoti úr vinstra horninu. Heimamenn minnkuðu muninn en fjögur stig frá Lewis í kjölfar tæknivillu tryggðu sigur Tindastóls. Lokatölur 90-100.
Frábær sigur og vel gert hjá Tindastólsmönnum að halda haus í erfiðum leik. Dempsey var magnaður og gerði 31 stig og hirti 9 fráköst – frábær íþróttamaður. Þá sýndi Lewis snilli sína en hann hafði hægt um sig í stigaskorinu framan af. Hann endaði með 21 stig, níu stoðsendingar og fimm stolna bolta. Þá átti Gurley fínar innkomur, hann reyndist heimamönnum erfiður og endaði með 18 stig á rúmum 13 mínútum. Pétur skilaði 14 stigum og sex fráköstum og átti fínan leik. Helgi Viggós staldraði stutt við að þessu sinni, fékk fimm villur en spilaði aðeins 13 mínútur, en hann fékk það hlutskipti að hægja á Hill.
Reggie Dupree var stigahæstur Keflvíkinga með 17 stig en bestur heimamanna var þó Valur Valsson. Hann gerði 13 stig, tók níu fráköst og átti tíu stoðsendingar. Hillarinn endaði með 15 stig og átta fráköst.
Annar leikur liðanna verður í Síkinu á sunnudaginn kl. 19:15 og ljóst að með sigri væru Stólarnir búnir að ýta Keflvíkingum upp að vegg. Það verður því pottþétt vel tekið á því og eru stuðningsmenn Tindastóls hvattir til að fjölmenna og gera sitt besta til að tryggja Stólunum níunda sigurleikinn í röð. Áfram Tindastóll!
Stig Keflavíkur: Dupree 17, Hill 15, Guðmundur 14, Valur 13, Magnús 8, Ágúst 6, Andri 5, Magnús Már 4 og Andrés 2.
Stig Tindastóls: Dempsey 31, Lewis 21, Gurley 18, Pétur 14, Viðar 7, Helgi Margeirs 5 og Svabbi 4.