- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það verða stálin stinn í Síkinu í kvöld þegar fram fer viðureign Tindastóls og KFÍ frá Ísafirði í Domino's deildinni. Barátta krókódíla við ísbirni, þetta verður eitthvað!
KFÍ vann Skallagrím í sínum fyrsta leik í Íslandsmótinu, en tapaði svo illa fyrir Fjölni í næsta leik á eftir. Eins og allir vita er Tindastóll án stiga en ætlunin að breyta því annað kvöld þegar Ísfirðingarnir koma í heimsókn.
Pétur Már Sigurðsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins, er þjálfari KFÍ og kemur með skemmtilegan blæ inn í deild hinna bestu á Íslandi.
Í liði KFÍ eru þrír erlendir leikmenn, sem skipta á milli sín tveggja útlendinga stöðugildinu hverju sinni. Þetta eru þeir BJ Spencer, hávaxinn bakvörður, Chris Williams kraftframherji og sá nýjasti í hópnum er Serbinn Momcilo Latinovic, sem er bakvörður og hefur spilað einn leik með liðinu í Lengjubikarnum. Hann þykir líka snoppufríður ásýndum og eitthvað fyrir augað, auk þess að vera fantagóður körfuboltamaður.
Í byrjunarliði KFÍ hefur síðan Pance Ilievski, bróðir Borce, verið, en hann hefur verið að setja 6.5 stig að meðaltali í leik og útdeila 3.5 stoðsendingum. Í miðherjastöðunni er það svo annar leikmaður með íslenskan ríkisborgararétt, Mirko Stefán Virijevic, hann hefur spilað áður hér á landi með Haukum og Breiðabliki. Jón Hrafn Baldvinsson er svo duglegur strákur, baráttuhundur sem lifir sig inn í leikinn.
Það lyftist brúnin á okkar mönnum eftir síðasta leik. Strákarnir voru að spila hörkuvörn sem skilaði góðum og sanngjörnum sigri gegn Fjölni í Lengjubikarnum. En það er deildin sem er stóra málið og þar er Tindastóll án stiga sem stendur, en KFÍ hefur landað einum sigri úr tveimur fyrstu umferðunum.
Það þarf ekki að orðlengja það nánar að þessi leikur er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur, ekkert annað en sigur kemur til greina og með góðum varnarleik og stuðningi áhorfenda aukast líkurnar á því.
Strákarnir eru í fínu standi, Rikki hefur að vísu verið að glíma við meiðsli í baki, en vonast til að hann hristi það af sér fyrir leikinn.
Dómarar verða þeir Sigmundur Már Herbertsson, Jón Gudmundsson, Einar Þór Skarphéðinsson, nokkrir af okkar reyndustu dómurum.
Leikurinn hefst á hefðbundnum tíma kl. 19.15. Þeir sem eiga ekki heimangengt geta séð útsendingu Tindastóll-TV sem að sjálfsögðu verður á staðnum, með Kára Mar og Viggó Jóns í fararbroddi.
Þess má geta að eftir leikinn spila sömu lið í unglingaflokki karla.