Stórleikur í Síkinu í kvöld

Það er til mikils að vinna fyrir Tindastól í Domino's deildinni í kvöld þegar Snæfellingar koma í heimsókn. Með sigri gæti farið svo að strákarnir lyftu sér upp í 8. sætið, eða síðasta sætið í úrslitakeppninni, þegar aðeins fjórar umferðir væru eftir.

Þetta helgast af því að úrslit verði okkur hagfelld í leik Skallagríms og Keflavíkur sem eigast við í Borgarnesi. Sigri Tindastóll í kvöld og Skallagrímsmenn tapa, komast okkar menn yfir þá í töflunni á innbyrðisviðureignum og stela af þeim 8. sætinu.

Leikir Tindastóls og Snæfells hafa venjulega verið svakalegir hér í Síkinu og mikil dramatík einkennt þá. Þrátt fyrir að Snæfell hafi oftast verið talið sigurstranglegra liðið upp á síðkastið hefur Tindastólsliðið sýnt mikla baráttu og vilja í leikjum gegn þeim. Við eigum harma að hefna síðan Snæfellingar slógu okkur út úr bikarnum hér í Síkinu í vetur og nú verður öllu tjaldað til.

Það væri sannarlega magnað að sjá strákana lyfta sér í 8. sætið nú þegar líður að lokum deildarkeppninnar. Gríðarleg barátta er um 8. sætið og alveg niður í fall, en bæði KFÍ og Fjölnir töpuðu leikjum sínum í gærkvöldi. ÍR-ingar sækja KR heim í Frostaskjólið í kvöld og eiga þar erfiðan leik fyrir höndum. Sigur í kvöld myndi sannarlega lyfta brúninni á stuðningsmönnum og nú er um að gera að drífa sig í Síkið og styðja strákana til sigurs gegn sterku liði Snæfellinga. Staðan í deildinni er þessi fyrir leiki kvöldsins;
1. Grindavík 14/4 28
2. Þór Þ. 13/5 26
3. Snæfell 13/4 26
4. Keflavík 12/5 24
5. Stjarnan 11/7 22
6. KR 9/8 18
7. Njarðvík 9/9 18
8. Skallagrímur 6/11 12
9. KFÍ 5/13 10
10. Tindastóll 5/12 10
11. Fjölnir 4/14 8
12. ÍR 4/13 8

Ein breyting hefur orðið á leikmannahópi Snæfells síðan þeir komu hingað síðast. Ryan Amoroso, sem lék með Snæfelli fyrir tveimur árum, er nú kominn aftur í herbúðir þeirra, en þessi firnasterki leikmaður hefur skorað 20.3 stig að meðaltali í þeim þremur leikjum sem hann hefur spilað og tekið heil 15.3 fráköst. Það verður því nóg að gera hjá þeim George og Helga Rafni í teignum í kvöld og fyllilega ástæða til að hvetja þá alveg sérstaklega í þeirri baráttu.

Fyrir brottflutta er bent á Tindastóll TV en þeir Kári Mar og Viggó sjá um að koma því öllu vel til skila fyrir notendur alnetsins!

Dómarar eru þeir David Kr. Hreidarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Davíð Tómas Tómasso og er um að gera að leyfa þeim að vinna sína vinnu í friði og einbeita sér að stuðningi við okkar lið.