Stórleikur í kvöld í DHL-höllinni

Tindastólsmenn heimsækja þá Gústa Kára og Palla Kolbeins og félaga í DHL-höllina í kvöld í annarri umferð Domino's deildarinnar. Bæði lið töpuðu fyrstu leikjum sínum og eru væntanlega staðráðin í að bæta fyrir það.

KR-ingar heimsóttu Fjölni í fyrstu umferðinni, en Fjölnismenn koma einmitt í Síkið á sunnudaginn í fyrstu umferð Lengjubikarsins. Fjölnismenn unnu KR-inga í hörkuleik 93-90 og voru það úrslit sem komu mörgum á óvart.

Í liði KR er margt snjallra leikmanna þar á meðal þrír landsliðsmenn sem stóðu í eldlínunni með A-landsliði karla í Evrópukeppninni í ágúst og september, þeir Finnur Atli Magnússon, Brynjar Þór Björnsson og Helgi Már Magnússon, sem einmitt er þjálfari KR-liðsins. Til viðbótar þessum kempum má telja Martin Hermannsson, hinn unga leikstjórnanda liðsins og amerískættaðan Danero Thomas.

Okkar menn eru í ágætu standi. Við þurfum meira afgerandi framlag frá erlendu leikmönnum okkar, en þeir lofuðu ágætu á köflum í leiknum gegn Stjörnunni á sunnudaginn.

Stuðningsmenn ætla að hittast á Mælifelli og horfa á leikinn saman á breiðtjaldi. Í boði verður Pizzahlaðborð og aðrar veitingar og renna 25% af innkomu veitingasölu kvöldsins til körfuknattleiksdeildarinnar. Það er því um að gera fyrir stuðningsmenn að mæta og horfa á leikinn í góðri stemmningu.