- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll tók á móti liði Hattar frá Egilsstöðum í Síkinu í kvöld en síðasta umferðin í 1. deild karla í körfubolta var spiluð í kvöld. Fyrir leikinn var ljóst að Tindastóll var deildarmeistari og sýndu Stólarnir á köflum flottan körfubolta og unnu að lokum öruggan sigur á ágætu liði Hattar. Lokatölur 97-77.
Jafnræði var með liðunum í fyrsta fjórðungi en Stólarnir
náðu yfirhöndinni fljótlega í leiknum. Gestirnir voru þó seigir og hleyptu
heimamönnum ekki úr augsýn í fyrsta leikhluta. Ingvi Rafn átti skínandi leik í
kvöld og var iðinn við kolann strax frá byrjun. Í liði gestanna átti Búbbinn,
Hreinsi Birgis, fínan leik og skoraði grimmt. Staðan að loknum fyrsta leikhluta
var 21-20 en Stólarnir stigu upp í öðrum leikhluta og þegar fimm mínútur voru
liðnar var staðan orðin 39-25. Bárður rúllaði mannskapnum vel eins og svo oft
áður og leikmenn virtust njóta þess að spila og sýndu góða spilamennsku í vörn
og sókn. Í hálfleik var staðan 47-33.
Veislan hélt áfram í þriðja leikhluta og Proctor bauð upp á eina glæsilegustu troðslu sem sést hefur í Síkinu. Flake vann boltann í vörninni og sendi fram á Proctor sem brunaði aleinn að körfu gestanna, kastaði boltanum síðan í körfuspjaldið, stökk upp og tróð boltanum með miklum tilþrifum í körfuna. Jíha! Helgi Freyr setti niður þrist og breytti stöðunni í 69-47 og ljóst að Hettirnir voru ekki að fara að spilla partýinu í Síkinu. Staðan var 73-49 að loknum þriðja leikhluta en heldur hægðist á Stólunum í fjórða leikhluta en þá fengu yngri leikmenn að spreyta sig meira og Austin Bracey gekk á lagið í liði Hattar og setti niður nokkur stig. Helgi Rafn var hins vegar frábær þegar leið á leikinn og skoraði grimmt og Stólarnir sigldu góðum sigri af öryggi í höfn.
Það var gaman að sjá til Stólanna í kvöld en liðið spilaði flotta vörn á löngum köflum og stálu til að mynda 17 boltum. Þá var sannkölluð skotveisla í gangi og mikið dritað fyrir utan 3ja stiga línu, meira að segja Helgi Rafn komst á blað á þeim slóðum. Helgi var stigahæstur Tindastólsmanna með 23 stig og 16 fráköst en Ingvi Rafn var með 19 stig og þá áttu Flake og Proctor fínan leik. Þá má geta þess að hjá gestunum var Hreinsi Birgis atkvæðamestur með 18 stig og 12 fráköst.
Frábær stemning var á leiknum, stórfín mæting í Síkið, og umgjörð leiksins glæsileg, ljósasjó og klappstýrur og að sjálfsögðu var rykið dustað af Króksa. Að leik loknum afhenti Guðbjörg Norðfjörð, fulltrúi KKÍ, Tindastólsmönnum sigurlaunin fyrir sigur í 1. deild. Dóri dómari taldi í 32 Stóla við góðar undirtektir leikmanna og áhorfenda og alla er farið að hlakka til að taka slaginn í Dominos-deildinni í haust. Áfram Tindastóll!
Stig Tindastóls: Helgi Rafn 23, Ingvi Rafn 19, Proctor 16,
Flake 15, Helgi Margeirs 10, Pétur Birgis 9, Finnbogi 3 og Friðrik Stefáns 2.