Tindastóll - Skallagrímur loksins!

Frestaður leikur Tindastóls og Skallagríms í Domino's deildinni verður leikinn á morgun fimmtudag í Síkinu. Leikurinn átti að fara fram í nóvember en var frestað vegna veðurs.

Liðin hófu nýja árið á ólíkan máta, Tindastóll tapaði Suður með sjó fyrir Grindvíkingum, en Skallarnir sóttu óvæntan útisigur gegn Þór í Þorlákshöfn. Það er engum blöðum um það að fletta að leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir Tindastól, sem situr enn á botni deildarinnar, en nú með 4 stig eftir tvo góða sigra fyrir jól, en Skallagrímsmenn eru með 8 stig í 7. sæti.

Þeir sem sáu Skallagrímsmenn hérna á undirbúningstímabilinu sáu að þar fór sterk liðsheild og síðan hafa tveir góðir erlendir leikmenn bæst við hópinn. Carlos Medlock leiðir stigaskor Skallanna, en kappinn sá hefur skorað 23.6 stig að meðaltali í leik. Undir körfunni hafa þeir svo áhugaverðan kraftframherja Haminn Quaintance, sem sker sig nokkuð úr á velli fyrir fríkaða hárgreðislu, hann hefur tekið flest fráköst eða 11.8 og jafnframt sent flestar stoðsendingar, 4.6, sem er nú ekki algengt hjá manni í þessari stöðu. Þar fer því öflugur leikmaður með gott auga fyrir samleik við samherja sína, auk þess sem hann setur rúm 20 stig í leik. Pál Axel Vilbergsson þarf vart að kynna, hann opnaði Íslandsmótið með 45 stigum á móti KFÍ í haust, en hefur skorað 18.9 stig að meðaltali í leik. Trausti Eiríksson og Orri Jónsson eru duglegir strákar sem gefa ekkert eftir og ekki má gleyma "þeim gamla," Sigmari Egilssyni sem lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að vera 39 ára gamall.

Leikurinn hefst stundvíslega kl. 19.15. Hann verður sýndur á Tindastóll TV að venju.

Dómarar leiksins eru skv kki.is Sigmundur Már Herbertsson og Ingvar Þór Jóhannesson, en ekki er komið fram hver þriðji dómarinn verður.