- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Fjórði leikur í einvígi Tindastóls og Hauka í fjögurra liða úrslitum Dominos-deildarinnar fer fram í kvöld kl. 19:15 í Síkinu. Það má reikna með rosalegum baráttuleik og Stólarnir munu ekki gefa þumlung eftir gegn sterku liði Hauka. Ekkert annað en sigur kemur til greina hjá Tindastólsmönnum og því alveg kristaltært að stuðningsmenn verða að fjölmenna í Síkið og styðja sína menn til sigurs.
Haukar, sem eiga einmitt 85 ára afmæli í dag, unnu þriðja leik liðanna í Hafnarfirði á laugardaginn og með sigri geta þeir sent Stólana í sumarfrí og tryggt um leið sæti sitt í úrslitunum. Lið Tindastóls þarf hinsvegar að sigra í leiknum til að tryggja sér oddaleik í Hafnarfirði og möguleikann á að spila um Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð.
Líkt og fyrir síðasta leik þá mun körfuknattleiksdeildin selja hamborgara fyrir leikinn. Sauðárkróksbakarí gefur brauðið og KS gefur kjöt og meðlæti. Kveikt verður undir grillinu fyrir utan íþróttahúsið skömmu fyrir kl. 18 og verður því hægt að gæða sér á gómsætum grillborgara fyrir leikinn. Um sannkallað hamborgaratilboð er að ræða, borgarinn kostar einungis 800 kr., grillborgari og gos er á 1000 kr.
Snillingarnir í Körfuboltakvöld Stöðvar2Sport verða í beinni útsendingu í Síkinu og það gengur ekki að svíkja þá heiðurspilta um alvöru stemningu þegar þeir kíkja norður í skagfirska efnahagssvæðið.
Það er því skyldumæting fyrir stuðningsmenn Stólanna í Síkið í kvöld og munum eftir að hafa jákvæðnina í fyrirrúmi. Áfram Tindastóll!