- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll tekur á móti Fjölni í Lengjubikarnum á morgun sunnudag kl. 19.15. Fjölnismenn hafa farið mikinn í upphafi Íslandsmótsins á meðan okkar menn hafa verið að hiksta aðeins.
Fjölnir sigraði KR í fyrstu umferð Domino's deildarinnar og lögðu síðan Ísfirðinga í Jakanum í annarri umferðinni. Þeir spila léttan og hraðan bolta og hafa innanborðs skemmtilega leikmenn.
Okkar menn hafa ekki náð að stilla saman strengi sína almennilega í upphafi Íslandsmótsins, en þessi leikur kemur á frábærum tíma fyrir liðið, því það styttist í að allt smelli saman og leikurinn á morgun kærkomið tækifæri til að færast nær því takmarki.
Stuðningur áhorfenda skiptir líka miklu máli og strákarnir þurfa góða hvatningu úr stúkunni til að finna fjölina sína.
Árni Ragnarsson hefur farið mikinn í upphafi móts fyrir Fjölni og verið duglegur í stigaskorun og fráköstum. Fjölnisliðið hefur tvo skemmtilega kana innanborðs, Christopher Matthews er bakvörður sem er hörkuskytta og duglegur að finna samherja sína, en hinn er örvhentur kraftframherji, Sylvester C Spicer, sem lék sinn fyrsta leik með liðinu gegn KFÍ á miðvikudaginn.
Helgi Rafn leiðir okkar menn í stigaskorun í upphafi móts, er með 16 stig að meðaltali. George Valentine er frákastahæstur í þessum tveimur leikjum sem liðið hefur spilað með 9.5 að meðaltali og Isaac Miles leiðir í stoðsendingum með 4.5 að meðaltali í þessum tveimur leikjum.
Tindastóll er í riðli með Fjölni, Stjörnunni og Breiðabliki undir stjórn Borce Ilievski, í Lengjubikarnum og leikjaniðurröðun riðilsins má sjá HÉR.
Dómarar verða þeir Björgvin Rúnarsson og Einar Þór Skarphéðinsson og sem fyrr eru áhorfendur hvattir til að eyða púðrinu í stuðning og hvatningu frekar en annað!
ALLIR Í SÍKIÐ Á SUNNUDAGSKVÖLDIÐ - ÁFRAM TINDASTÓLL!!