- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll tók á móti toppliði Keflvíkur í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld og það var heldur betur fjör í sjóðheitu Síkinu. Slenið sem hefur legið eins og mara yfir leikmönnum Stólanna í haust var á bak og burt og nú kannaðist maður aftur við baráttuna og leikgleðina sem einkenndi liðið síðasta vetur. Keflvíkingar voru reyndar fullir af sjálfstrausti og spiluðu á köflum glimrandi körfubolta en í kvöld voru það heimamenn í Tindastóli sem bitu betur á jaxlinn þegar mestu máli skipti. Lokatölur 97-91.
Það var strax hörkutempó í leiknum og greinilegt að Stólarnir ætluðu að selja sig dýrt. Gestirnir voru taplausir fyrir leikinn og höfðu enga ástæðu til að gefa þumlung eftir. Byrjunarlið Tindastóls var skipað þeim Lewis og Hill og síðan unglingunum Pétri, Ingva og Viðari. Byrjunarliðið lét allt til sín taka og baráttan í fyrirrúmi. Viðar kom Stólunum í 12-10 en gestirnir jöfnuðu strax og í raun og veru allt hnífjafnt fram yfir miðjan leikhlutann en þá náðu Tindastólsmenn góðum kafla og voru yfir 31-23 að loknum fyrsta leikhluta.
Keflvíkingar skiptu yfir í svæðisvörn í öðrum leikhluta og söxuðu strax á forskot heimamanna sem þurftu smá tíma til að finna taktinn gegn nýrri vörn gestanna. Keflvíkingar jöfnuðu 37-37 og komust síðan yfir 37-39. Ingvi Rafn svaraði með þristi en hann átti flottan leik í kvöld. Liðin skiptust síðan á um að hafa forystuna til hálfleiks en það var að sjálfsögðu Darrel Lewis sem jafnaði leikinn, 54-54, með 3ja stiga skoti skömmu fyrir hlé.
Þriðji leikhluti var skemmtilegur og spennandi en nú var fastar tekið á í vörnum liðanna. Ingvi kom Stólunum í 67-64 með fallegum þristi og Flake bætti tveimur stigum við. Stólarnir voru með frumkvæðið en munurinn yfirleitt þetta eitt til fimm stig og það var því svekkjandi þegar Keflvíkingar jöfnuðu rétt fyrir hlé – þeir eiga margar flottar skyttur en það er ekkert leynilegt við skyttuna Magga Gunn sem dúndraði niður þristi og staðan 71-71. Darrel Lewis, sem átti stjörnuleik í kvöld, svaraði í sömu mynt skömmu áður en leikhlutinn kláraðist og staðan því 74-71 þegar lokaátökin gengu í garð.
Tindastólsmenn byrjuðu fjórða leikhluta af miklum krafti. Addú setti niður tvö þrista og síðan setti Jerome Hill niður tvö víti og staða Stólanna heldur betur vænleg, 82-71. Keflvíkingar eru hinsvegar ekkert sérstakir í að gefast upp og þeir gerðu næstu sjö stig. Svabbi laumaði niður þristi sem skreið hálfpartinn niður en aftur komu gestirnir og þegar þrjár og hálf mínúta var eftir mætti Maggi og jafnaði leikinn, 87-87. Nú var baráttan í algleymingi og spennustigið hjá leikmönnum Tindastóls hærra en góðu hófi gegndi; sóknirnar of stuttar og ansi mörg vítaskot fóru í vaskinn. En þá var bara stigið upp í varnarleiknum. Spennustigið hjá gestunum var líka hátt og hvað eftir annað lentu leikmenn Keflavíkur hreinlega á vegg. Í stöðunni 91-91 læddist Lewis með endalínunni og lagði boltann í körfu Keflvíkinga og fékk víti að auki. Pétur fékk síðan tvö víti þegar hálf mínúta var eftir og setti það seinna niður. Earl Brown Jr., frábær leikmaður gestanna, fékk síðan tvö skot en brást bogalistin í báðum og það var síðan Addú sem tryggði sætan sigur af vítalínunni. Lokatölur 97-91 og Stólarnir þar með fyrstir til að vinna lið Keflvíkinga í vetur.
Það reyndist lykilatriði í leiknum í kvöld að lið Tindastóls tók 42 fráköst á meðan Keflvíkingar tóku 18. Jerome Hill var geysi kröftugur í fráköstunum, tók 15 stykki og þar af sjö sóknarfráköst. Hann gerði líka 20 stig og og allt annað að sjá til hans nú en í fyrstu leikjum hans með Stólunum. Lewis var stigahæstur í Síkinu með 32 stig og nú var brosið aftur komið á kappann. Pétur og Ingvi voru góðir og þeir sem komu við sögu sýndu góða takta. Í liði gestanna var (Króksarinn) Valur Valsson Ingimundarsonar bestur; gerði 18 stig, átti sjö stoðsendingar og stal þremur boltum. Stigahæstur var þó Earl Brown Jr. með 27 stig en Stólunum tókst að spila góða vörn á hann í síðari hálfleik og gerðu honum erfitt fyrir.
Mikil og góð stemning var í Síkinu og lék Jou Costa, þjálfari Tindastóls, við hvurn sinn fingur á hliðarlínunni. Enda ekki nein leiðindi í Síkinu í kvöld og sigurinn fagur. Já, það var ekki annað að sjá en að við séum búin að endurheimta Stólana okkar!
Stig Tindastóls: Lewis 32, Hill 20, Ingvi 12, Pétur 9, Addú 8, Svabbi 7, Viðar 5, Helgi Rafn 2 og Flake 2.