- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það var boðið upp á taumlausa skemmtun og farsælan endi í Síkinu í kvöld þegar Keflvíkingar komu sperrtir til leiks eftir að Stólarnir höfðu, að sögn körfuboltaspekinga landsins, kveikt neistann í Keflvíkingum í síðasta leik sem Suðurnesjamennirnir unnu örugglega. Sú tíra var ekki lengi að slokkna því leik var nánast lokið eftir fyrsta leikhluta. Lokatölur í Síkinu 98-68 fyrir Tindastól sem hefur því tryggt sæti sitt í fjögurra liða úrslitunum.
Stemningin í Síkinu var hreint geggjuð því halftima fyrir leik var stúkan þéttsetin, aðeins Keflvíkingar sem létu bíða eftir sér. Þeir voru í fínu stuði þegar þeir mættu og mikið gaman að heyra stuðningsmannasveitir liðanna kallast á á löngum köflum allt kvöldið.
Tindastólsmenn tóku frumkvæðið strax í byrjun. Veltubræður (Viðar og Pétur) byrjuðu á að setja fyrstu tvær körfur leiksins svona svo allir væru með á hreinu að þeir væru til í slaginn. Eftir rúmar þrjár mínútur var staðan orðin 13-3 og vörn Tindastóls algjörlega mögnuð. Helgi Viggós var í ham og allar hreyfingar tímasettar upp á sekúndubrot. Hill fór hverja ferðina eftir aðra til að klaga í dómarana sem sýndu honum þolinmæði en lítinn skilning. Í sókn Stólanna gekk nánast allt upp sömuleiðis og það var helst að Lewis væri að klikka í skotunum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 30-11 og talnaglöggir menn voru fljótir að framreikna það og töldu það næsta víst að leikurinn endaði 120-44.
Keflvíkingar minnkuðu muninn í byrjun annars leikhluta í 30-16 og fjórar mínútur liðu þangað til Stólunum tókst að skora í opnum leik. Þá setti Gurley niður þrist og skömmu síðar hrökk sóknarleikur heimamanna aftur í gírinn. Dempsey tróð með tilþrifum og munurinn orðinn tuttugu stig, 44-24, og það var síðan Hannes Ingi sem gerði síðustu körfu fyrri hálfleiks. Staðan 50-28.
Keflvíkingar höfðu sýnt það í fyrri viðureignum gegn Tindastóli í vetur að þokkalegt forskot andstæðinganna er ekkert að trufla þá og hafa þeir oft átt góðar endurkomur. En það var bara ekki í boði í Síkinu kvöld. Tindastólsmenn héldu áfram af sama krafti og það stóð ekki steinn yfir steini hjá gestunum. Dempsey var frábær í leikhlutanum og gerði margar gullfallegar körfur. Um miðjan leikhlutann var staðan orðin 65-34 og þrátt fyrir hetjulega frammistöðu gestanna á áhorfendapöllunum þá virtust leikmenn flestir vera á leiðinni heim í Keflavík í huganum.
Staðan var 75-42 þegar fjórði leikhluti hófst og nú urðu gestirnir að láta sverfa til stáls í 3ja stiga skotunum sem hingað til leiks höfðu ekki gefið gull og græna. Fyrstu mínútur leikhlutans skutu gestirnir af kappi en hittu ekki vel og Stólarnir geistust upp völlinn og settu hverja körfuna af annarri í andlitið á þeim. Þegar tæpar sjö mínútur voru til leiksloka var munurinn kominn í 42 stig og þegar fjórar mínútur voru eftir stóð 89-57. Þá var leik í raun lokið og Stólarnir gáfu örlítið eftir á lokakaflanum en 30 stiga stórkostlegur sigur staðreynd.
Það er óhætt að fullyrða að Helgi fyrirliði Viggós hafi farið fyrir sínum mönnum í kvöld en varnarleikur hans var hreint listaverk. Samherjar hans stigu dansinn með honum og fengu gestirnir aðeins örfá opin skot úr að moða í fyrri hálfleik. Helgi gerði ellefu stig og tók 18 fráköst. Dempsey var stigahæstur með 20 stig og flotta nýtingu en annars var stigaskor Tindastólsmanna jafnt og gott. Stólarnir unnu frákastaslaginn mikilvæga með yfirburðum (52/35) og nýttu 3ja stiga skotin betur. Í liði gestanna var Jerome Hill öflugastur. Hann nýtti lokamínútur leiksins vel til að laga tölfræðina sína en sá vart til sólar í fyrri hálfleik. Valur náði sér engan veginn á strik og endaði með eitt skot niður í þrettán tilraunum.
Enn er óljóst hvaða liði Tindastóll mætir í fjögurra liða úrslitum en eins og staðan er í hinum einvígunum eru mestar líkur á að það verði lið Hauka í Hafnarfirði. Allt getur þó gerst og það verður spennandi að fylgjast með næstu leikjum í úrslitakeppninni.
Stig Tindastóls: Dempsey 20, Gurley 15, Viðar 13, Pétur 12, Helgi Viggós 11, Lewis 10, Helgi Margeirs 9, Hannes 5 og Ingvi 3.
Stig Keflavíkur: Hill 27, Guðmundur 11, Dupree 10, Maggi Gunn 8, Ágúst 3, Andri 3, Valur 2, Arnór 2 og Andrés 2.