Yfirlýsing frá stjórn körfuknattleiksdeildar

"Stjórn Körfuknattleiksdeildar Tindastóls harmar þær umræður sem orðið hafa um ungan og efnilegan leikmann sem Tindastóll fékk í sínar raðir fyrir tímabilið, Sigtryggs Arnars Björnssonar, og nýleg samskipti stjórnar og þjálfara við hann. Sú krafa sem gerð er til liðs í efstu deild í hópíþrótt leiðir vissulega til þess að gerðar eru ríkar kröfur til leikmanna og krefst þess að gott traust sé á milli leikmanna, þjálfara og stjórnar. Það er því ekki óalgengt að einhver málefni komi upp sem talið er þörf á að taka á í samskiptum við leikmenn, en jafnframt leiðinlegt þegar umræða verður hávær og óvægin án allra upplýsinga um málið. Ekki er ætlunin að tíunda þau atriði sem urðu þess valdandi að ákveðinn brestur kom í samstarf félagsins og Sigtryggs Arnars, en eftir skoðun á málavöxtum hefur náðst full sátt og ekki um nein óleyst mál að ræða milli félagsins og hans.“
Þröstur I Jónsson
formaður körfuknattleiksdeildar