- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll sótti Njarðvíkinga heim í Dominos-deildinni í gærkvöldi og landaði þar sínum fyrsta sigri í átta deildarleikjum. Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur og mikil spenna undir lokin.
Strákarnir okkar hófu leikinn af miklum krafti. Þeir Drew, George og Helgi Rafn sáu um stigaskorið í fyrsta leikhlutanum og byrjunin lofaði góðu. Þegar um 2 og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum var Tindastóll komið með 10 stiga forystu 14-24, en Njarðvíkingarnir komu ágætlega til baka en munurinn 6 stig eftir fyrsta leikhlutann eða 22-28.
Njarðvíkingar jöfnuðu leikin í 30-30 eftir tæplega tvær mínútur og komust svo yfir og leiddu í hálfleik 46-40.
Ingvi Rafn opnaði seinni hálfleikinn með þristi en heimamenn létu það ekki slá sig út af laginu og náðu 13 stiga forystu 65-52 áður en Þröstur Leó setti tvo þrista í röð og staðan 66-58 fyrir Njarðvík þegar gengið var til síðasta leikhlutans.
Svavar Atli hóf síðasta leikhlutann með þriggja stiga körfu og kveikti nokkuð í okkar mönnum. Í stöðunni 71-63 komu 7 skagfirsk stig í röð og munurinn allt í einu orðinn eitt stig. Njarðvík komst í 74-70 með þriggja stiga körfu, en Sigtryggur Arnar svaraði um hæl með annarri slíkri þegar um fjórar og hálf mínúta var eftir. Tindastóll skoraði hins vegar 9-2 á lokamínútunum og landaði þar með sínum fyrsta sigri í deildinni. Lokatölur 80-86.
George Valentine átti prýðisleik að venju, en hann skoraði 21 stig og tók 7 fráköst. Skornýting piltsins var hreint mögnuð eða 9/10 í tveggja stiga skotum. Drew Gibson minnti hressilega á sig, setti 18 stig og sendi 11 stoðsendingar. Allt annað að sjá til hans núna heldur en í Síkinu á dögunum gegn Þór. Þröstur Leó setti 16 stig, Helgi Rafn 14 auk þess að taka flest fráköst Tindastólsmanna eða 10, Sigtryggur Arnar var með 7 stig eins og Svavar Atli og Ingvi Rafn skoraði 3 stig.
Sannarlega þungu fargi létt af okkar mönnum, fyrstu stigin komin í deildinni og nú þarf að fylgja þessu eftir á heimavelli gegn ÍR á fimmtudaginn í næstu viku. Nú er ljóst að hinn frestaði Skallagrímsleikur verður ekki leikinn fyrr en eftir áramót. Það er því bara einn leikur eftir í deildinni og afar mikilvægt að halda áfram á sigurbraut.