Æfingar á daginn - byggingavinna á kvöldin

Axel Kárason tók þátt í Evrópuævintýri A-landsliðs karla nú á dögunum, þar sem liðið þeyttist út um alla Evrópu og spilaði alls 10 landsleiki heima og heiman á innan við einum mánuði. Hann er leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins Værlöse í Kaupmannahöfn og leggur stund á nám í dýralækningum við Kaupmannahafnarháskóla. Okkur lék forvitni á að vita hvernig Axel upplifði stemninguna í landsliðinu og fórum um víðan völl.

Axel segir að tilfinningin við þeim fréttum að vera í 12 manna leikmannahópi landsliðsins hafi fyrst verið léttir yfir því að fyrirhöfnin sem fylgdi því að taka þátt í verkefninu hafi borið árangur. – Bæði það að hafa farið helgarferð til Íslands um miðjan júní og svo aftur út til Danmerkur í 2 vikur til að klára prófin, og að hafa „brugðið búi“ í Skagafirðinum og farið suður um miðjan júlí voru töluverðar fórnir fyrir mann eins og mig, sérstaklega seinna atriðið. Það kom því upp sælutilfinning yfir því að vita að það var ekki til einskis gert. Axel bætir við að spenningurinn hafi síðan tekið við af léttinum. – Ég hafði fengið smávegis smjörþef af umgjörðinni hjá stóru þjóðunum þegar við spiluðum æfingaleik við Litháa í Vilnius seinni part júlímánaðar, þannig að tilhlökkunin var mikil við að sjá fram á að spila 3-4 leiki til viðbótar fyrir framan þúsundir manna. Svo var að sjálfsögðu spennandi að fá að spila heimaleik með landsliðinu, það hafði ég ekki gert áður.

 

Æfingar á daginn – byggingavinna á kvöldin

 

Landsliðið æfði vel í sumar undir stjórn hins nýja landsliðsþjálfara Peters Öqvists. Axel segir æfingarnar hafa verið mjög krefjandi. - Fram að keppni æfðum við 5-6 sinnum í viku, þar af tvisvar yfir daginn, 4-5 daga í vikunni. Ofan í kaupið, eins og danskurinn segir, bættist svo við að hið margfræga tempó var mjög hátt á æfingunum, menn tóku því yfirleitt á öllu sem þeir áttu á þeirri stundu. Milli æfinga baslaðist maður svo við að ná sér í einhverja sumarhýru í byggingavinnu þannig að sum kvöldin þegar heim var komið, var maður bara sáttur með það eitt að geta enn dregið andann, segir Axel. Hann bætir við að honum hafi líkað nokkuð vel við Peter Öqvist þjálfara sem hann segir lifa fyrir körfubolta nótt sem nýtan dag og krefjist mikið af sínum leikmönnum. – En að sama skapi hefur áhugi hans smitandi áhrif og hann gætir þess að sinna öllum leikmönnum. Þannig að ráðning hans var mikið auðnuspor fyrir íslenskan körfubolta.

 

Andinn í hópnum mjög góður

 

Andinn í hópnum var mjög góður segir Axel. Hann segir að í hópnum hafi verið valinn maður í hverju rúmi, bæði innan vallar sem utan og það tæki allt of langan tíma að telja fram öll þau skemmtilegu atvik sem upp hafi komið á þessum tveimur mánuðum. - Margir af þessum strákum hafa líka verið lengi saman, bæði í unglinga- og A-landsliðum og eins í félagsliðum. En það var nú líka full þörf á því að hópurinn næði vel saman. Við hittumst daglega í 4 vikur á meðan keppninni stóð, og á ferðadögunum eyddum við 18-25 tímum saman samfellt, en aldrei varð maður var við neina bresti eða annað í þá áttina, segir hann.

 

Umgjörðin skref upp á við miðað við félagsliðaharkið

 

Aðspurður um umgjörð landsliðsins segir Axel að hann hafi ákveðið fyrirfram að verða ánægður með hana, ef honum fyndist hún vera skref upp á við miðað við það sem hann væri vanur úr félagsliðaharkinu. - Það stóð nú alveg heima með það enda margt fólk innan KKÍ sem vinnur vel og mikið, best að nefna þar fremsta Skagfirðingana Rúnar Birgi Gíslason og Pál Kolbeinsson ísgerðarmeistara. En að sjálfsögðu setur fjármagnið tóninn í því hvað er hægt að gera. Það væri auðvitað afskaplega gott að fljúga beint í leiguflugvél á milli borga á þeim tíma dagsins sem hentaði okkur best, en þannig er nú ekki blákaldur raunveruleikinn.

 

Eins og allir vita spilaði landsliðið 10 leiki á mánaðartímabili. Gríðarlega mikið álag á strákunum og margir sem spurðu sig þeirrar spurningar hvort að liðið gæti raunverulega spilað af réttu getustigi miðað við þetta leikjaprógramm. Hvenær var liðið að spila best að mati Axels? - Það var tvímælalaust þegar við náðum að halda uppi hraðanum, sérstaklega varnarlega. Varnarkerfið gekk mikið út á skiptingar og að spila fast út um allan völl og þegar það var að ganga upp. En svo þurftum við líka að hitta vel, og það sveik okkur helst til of oft, nema þá í fyrri hálfleik á móti Svartfellingum. En það sem er svo magnað, er að í 1. leikhluta á móti Serbum úti, vorum við alls ekkert að framkvæma okkar taktík illa. Skiptingar voru margar hverjar góða, yfirdekkað á blokkinni og það var hreinlega ekki mikið um atriði sem voru framkvæmd illa. Samt vorum við 20 stigum undir þegar 1. leikhluti kláraðist, sem segir eitthvað um gæðin á þessum blessuðu andstæðingum okkar.

 

Þungir fætur eftir 18-25 tíma ferðalög

 

Axel segir að töpin heima á móti Eistum og Slóvökum hafi verið þau mest svekkjandi. Hann segist hafa merkt við þessa tvo leiki sem mögulega sigra fyrir mót og því hafi það verið mikil vonbrigði að tapa hér heima fyrir þessum þjóðum. – Að eiga svo jafn slappa frammistöðu á móti Eistum og taka jafn grátlega fyrir Slóvökum og raunin varð, var mjög svekkjandi. Eistarnir reyndust svo mikið sterkari en ég átti von á fyrir keppni. Fyrir keppnina var gælt við að ná allt að 5 sigrum, en þegar ég lít til baka hefðu þrír sigrar orðið mjög góður árangur miðað við styrkleika liðanna, útskýrir Axel og bætir við að öll þessi stífu ferðalög hafi haft mikil áhrif á frammistöðu liðsins. – Við vorum að ferðast á bilinu 18-25 tíma daginn fyrir og daginn eftir útileik, segir hann. Ofan á það bættist ferðalag á milli tímabelta og því má segja að útfrá læknisfræðilegum sjónarmiðum hafi hópurinn aldrei fengið góðan svefn á meðan keppninni stóð. Hann segir að fæturnir hafi verið fljótir að þyngjast við álagið og hafi tekið mikið af sér, hvað þá þeim sem síðan voru að spila um og yfir 35 mínútur í hverjum leik.-  Ef ég hefði haft hatt á bekknum hefði ég tekið hann ofan fyrir byrjunarliðsmönnunum eftir hvern leik. Eftir á að hyggja voru líklega mistök að gefa mönnum frí á Íslandi daginn eftir heimaleik og eyða deginum fyrir útileiki í að komast á staðinn. Í staðinn fyrir að æfa á Íslandi með þreytta menn daginn eftir leik hefði líklega verið betra að nota þann dag í að ferðast og leyfa mönnum svo að hvíla sig fram eftir deginum fyrir leik og ná góðri æfingu kvöldið fyrir. En þessi taktík varð ofan á, aðallega til að gefa fjölskyldumönnunum einhvern tíma á landinu sem er auðvitað vel skiljanleg afstaða líka. En þetta fer bara í reynslubankann.

 

Ótrúlegar móttökur í Svartfjallalandi

 

Axel varð, eins og Króksarar segja oft, „alveg vita bit“ yfir móttökunum sem liðið fékk í Svartfjallalandi. Við gefum Axel nú orðið þar sem hann lýsir ferðalaginu og móttökunum nánar:  - Fyrirfram vissum við að þetta yrði erfiðasta ferðalagið. Ekki nóg með að við þurftum að taka 3 flug (Keflavík-Heathrow-Belgrad-Podgorica) þá var leikurinn ekki haldinn í höfuðborginni  og því var 2 tíma rútuferð ofan á öll flugin. Við vorum sem sagt sendir til 75.000 manna bæjarins Nikšić sem liggur á hásléttu inn í miðju Svartfjallalandi, umkringt jú, fjöllum. Fyrsta atriðið sem mér þótti merkilegt var að strax við flugvöllinn beið lögreglan okkar og fór fyrir rútunni alla leiðina með ljósin blikkandi.

Þegar við áttum svona hálftíma eftir til Nikšić  var komið myrkur og þá fór ég allt í einu að finna lykt af brenndu timbri. Fljótlega kom í ljós frá Svartfellska fararstjóranum að það voru búnir að geysa skógareldar á Balkanskaganum í fleiri daga. Þegar við stigum svo út úr rútunni þá var hægt að finna og sjá hversu mikið reykjarmökkurinn lá yfir bænum. Morguninn eftir á leikdag fórum við svo á skotæfingu, að sjálfsögðu í lögreglufylgd, og við það má bæta að það var lögregluþjónn á vakt yfir okkur á hótelinu allan tíman. Við mætum í íþróttahúsið, þetta er svona um 5000 manna höll, byggð þegar Tito og aðrir framármenn í júgóslavneska kommúnistaflokknum voru upp á sitt besta. Ég tók einmitt eftir því að heiðursstúkan í höllinni eru svalir ofarlega á skammhlið þar sem engar aðrar áhorfendastúkur voru. Líklega svo almúginn ætti auðveldara með að líta upp til foringjana.

Á milli morgunæfingar og leiks fórum við nokkrir leikmenn í stuttan göngutúr, svona rétt til að taka stöðuna á bæjarlífinu. Þar var margt öðruvísi en maður á að venjast. Húsakostur almennt ekki í góðu ásigkomulagi, ein og ein kýr bundin á beit í bakgörðum fólks og síðast en ekki síst eldar og reykjarmekkir í fjallshlíðum.

Svo var komið að leiknum. Rúmlega 4000 áhorfendur voru mættir snemma og í einu horninu voru menn klæddir Svartfellskum litum og farnir syngja. Eftir ræðu þjálfarans um 30 mínutum fyrir leik gengum við allir saman inn í sal. Þá tók ég eftir því að margir fóru að blístra og var að velta því fyrir mér hvort það væri verið að baula á okkur, en áttaði mig svo á því að það væri líka verið að klappa. Þá kveikti ég á perunni með að Ísland var fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Svartfjallalands árið 2006. Seinna þegar þjóðsöngur okkar var svo leikinn kom mín uppáhalds minning frá allri keppninni. Ekki nóg með að þeir spiluðu hann á sínum eðlilega hraða, heldur var svo mikið klappað að ég hef aldrei kynnst öðru eins. Þá kom upp töluverð gæsahús yfir því að þarna er fólk sem segja má að sé hinum enda Evrópu miðað við Ísland, bæði landafræðilega og efnahagslega skuli meta þetta svona mikils og þakki svona vel fyrir sig.

Það tók okkur svo 25 tíma að komast til Reykjavíkur frá Nikšić, og þegar ég skreið upp í rúm um 3 leytið að nóttu þá gat ég allavega huggað mig við það að væru alveg 3 sólarhringar í næstu ferð á Balkanskagann.

 

Engir góðgerðarleikir

 

Axel fékk ekki margar spilamínútur í keppninni og þótti sumum nóg um að þjálfarinn hafi ekki leitað til hans í það minnsta þegar leikir voru gjörtapaðir og nauðsynlegt að margra mati að hvíla lykilleikmenn í þessari erfiðu og álagsmiklu keppni. Þeir sem þekkja hins vegar Axel vita að hann er enginn fýlupoki þegar kemur að svona hlutum. Hann segir einmitt að ef hann væri fýlupoki að upplagi, hefði hann eflaust orðið ósáttur við fáar mínútur á gólfinu. - Þetta voru nú ekki góðgerðaleikir og því alveg ljóst að það myndu einhverjir þurfa að verma tréverkið meira en aðrir. Auðvitað var maður orðinn hálf órólegur á köflum sökum löngunar í að komast inn á, en ég reyndi bara að nota tækifærið og fylgjast með þessu háa getustigi sem ég var kominn í og reyna að sjá hvar bætinga væri helst þörf svo ég gæti stimplað mig betur inn. Sem dæmi má nefna eftir að hafa séð leikstíl manna eins og Omri Casspi (og meira að segja fengið einn ollara í smettið frá honum) er alveg ljóst að ég er einfaldlega alltof lágvaxinn fyrir þennan bolta miðað við minn leikstíl, segir Axel. Hann bætir við að fyrir fyrsta leikinn á móti Serbum hafi sést spjald sem Serbarnir höfðu hengt upp í klefanum sínum. Það var stutt skýrsla um leikmenn Íslands og þar settu Serbarnir hann í 2-3 stöðurnar. - Þó að þetta sé auðvitað dæmi um hræðilega forvinnu þjálfarateymis Serbana, þá hafa þeir kannski eitthvað til síns máls. Og þá er bara að bæta sig í þeim hlutum sem fara fram utar á vellinum, og að sjálfsögðu byrja á varnarvinnunni. En það þarf svo ekki að þýða einhverjar mínutur sjálfkrafa, enda ræður þjálfarinn þessu, segir hinn jarðbundni Axel.

 

Talsverð umræða skapaðist um áhorfendafjöldann á landsleikjunum, sem var sannast sagna ótrúlega lítill miðað við aðstæður og tækifæri körfuboltafólks til að sjá körfubolta í heimsklassa. Axel telur að hugarfarsbreytingu þurfi til, að fólk fari að mæta á leiki til að styðja sitt lið í staðinn fyrir að mæta til þess eins að sjá liðið sitt sigra. - Auðvitað hefði ég viljað sjá fulla Laugardalshöll á hverjum einasta leik, held að það sé alls ekkert til of mikils ætlast að ná því, segir Axel og bætir við: - Það sást líka að við áttum okkar besta heila leik á móti Serbum, þegar stemningin og mætingin var best. Eins er ég alveg viss um að það hefðu nást stig í heimaleikjunum á móti Slóvökum og Svartfellingum ef við hefðum verið með toppmætingu á þeim leikjum.

 

Sér ekki tilganginn í leikmannakaupum landsliðsins

 

Nú færum við okkur yfir í viðkvæmari málefni er snúa að landsliðinu. Afar mikil umræða skapaðist á meðan keppninni stóð um það hvort að Ísland ætti að splæsa í ríkisborgararétt fyrir hávaxinn leikmann til að auka líkurnar á hagfelldari úrslitum í framtíðinni. Um þetta eru mjög skiptar skoðanir og skiptist fólk algjörlega í tvö horn þegar þessi mál eru rædd. En við gefum Axel orðið og leyfum honum að tjá sínar skoðanir á málinu og hann er sannarlega ekki skoðanalaus: - Ég segi nú bara eins og Mikki refur í túlkun Bessa heitins Bjarna ,,þetta er það mesta bull sem ég hef nokkurn tíman heyrt". Hver er tilgangurinn í því að vera með landslið ef það á síðan bara að standa í leikmannakaupum eins og er hjá félagsliðum? Þetta hljóta að eiga að vera tveir ólíkir hlutir, eða hvað? En þá komum við aftur að þessari spurningu um hvort að úrslit leiksins eigi að vera eina upplifunin. Mér finnst það töluvert annað þegar menn eins og t.d. Justin Shouse sem eru búnir að spila töluvert á Íslandi og hafa einhverja tengingu við landið séu fengnir til að klæðast íslenska landsliðsbúningnum, en þegar menn eru svo beinlínis keyptir, segir Axel. Við þetta mál bæta að á hinum magnaða körfuboltamiðli karfan.is, var sett upp skoðanakönnun um þetta mál og skiptust þeir rúmlega 400 sem þátt tóku nákvæmlega til helminga í afstöðu sinni til málsins. Það er því ljóst að skoðanir eru misjafnar og áhugavert að sjá hvernig körfuknattleiksforystan tekur á þessum máli, ef hún telur yfir höfuð þörf á því.    

En vill Axel að landsliðið haldi áfram á sömu braut? - Ef að KKÍ hefur efni á að halda áfram þá er það engin spurning.  Stemning fyrir A-landsliðinu er svona púsl sem hefur vantað í uppgangi körfuboltans á Íslandi síðustu ár. Svo gerist þessi breyting að nú er öllum landsliðunum steypt saman og þá erum við allt í einu farin að spila alvöru leiki við margar af bestu þjóðum álfunnar. Það er bara svo allt annað en að taka æfingaleiki af og til við stóru þjóðirnar, og menn eins og Teodosic og Casspi selja miða, svo einfalt er það nú. Svo má ekki gleyma því að leikmenn hafa gott af því að miða sig við þá bestu.

 

Er elsti leikmaður Værlöseliðsins

 

Við vendum okkar kvæði í kross og forvitnumst aðeins um körfuboltann sem Axel er að spila í dönsku deildinni, en þar leikur hann með liði Værlöse í Kaupmannahöfn sem á dögunum var spáð 6.-10. sætinu í deildinni í vetur.  - Þetta tímabil verður svolítið sérstakt fyrir mig. Við erum 2 eftir í liðinu frá því í fyrra, og ég sit uppi sem elsti maður liðsins. Ekki nóg með það, heldur er ég eini Evrópumaðurinn sem er svo gamall að vera fæddur á 9. áratug síðustu aldar, þeim annars ágæta áratug. Markmiðið er svo sem bara svipað og hin fyrri ár, byrjum á því að halda okkur uppi og þegar það er komið förum við að hugsa um að komast í úrslitakeppnina. En við erum búnir að vera svo stutt saman að ég get eiginlega ekki alveg gert mér grein fyrir möguleikum okkar gegn öllum liðunum. Grunar samt að við munum seiglast þetta áfram eins og gamall, skipagrár Ferguson, segir hinn landbúnaðarsinnaði Axel Kárason.

 

Stefnir á að verða Evrópumeistari með Tindastóli

 

En hvert stefnir hugurinn að námi loknu? - Með þessum vetri á ég 3 vetur eftir hérna í Kaupmannahöfn, ef allt gengur samkvæmt áætlun. Ég var með einhverjar yfirlýsingar um það í sumar um að gera Tindastól að Evrópumeisturum að námi loknu, verður ekki að halda áfram með þá yfirlýsingu? Það er reyndar að því gefnu að Hlynur Bæringsson, veðurfarsfræðingur (með þykkt skýja sem sérsvið) samþykki að koma norður og spila með mér, segir hinn geðþekki og ósérhlífni leikmaður Axel Kárason að lokum.