- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það er hátíð í bæ því í kvöld hefst Dominos-deildin í körfubolta á ný. Tindastólsmenn fá sprækt lið ÍR í heimsókn og það er óhætt að fullyrða að stuðningsmenn Tindastóls er fyrir löngu farið að hlakka til tímabilsins. Stólarnir hafa sjaldan eða aldrei haft úr breiðari og betri hópi leikmanna að moða og væntingarnar talsverðar fyrir tímabilið, enda liðið verið að sýna góða takta nú á undirbúningstímabilinu og helstu spekingar spá liðinu góðu gengi í vetur – jafnvel mjög góðu!
Tveir nýjir skagfirskir leikmenn hafa bæst í hópinn, Axel Kárason og Sigtryggur Arnar Björnsson, og þá hafa Stólarnir ráðið til sín aðstoðarþjálfarann Fernando Bethencourt Muñoz. Pálmi Geir skipti aftur á móti í Þór Akureyri og sennilega hefur Svabbi lagt skóna á hilluna. Að öðru leiti er Tindastólsliðið óbreytt frá því á síðasta tímabil nema hvað að Martin hefur fengið aðstoðarþjálfarann Fernando sér til halds og trausts.
Sem fyrr segir hefur liðinu verið spáð góðu gengi í vetur þó flestir hinna svokölluðu spekinga geri ráð fyrir að Vesturbæingar muni ekki gefa meistaratitilinn frá sér. Í Dominos-kvöldi í gær var Kiddi Friðriks, fyrrum leikmaður og þjálfari Stólanna, þó á þeim buxunum að Stólarnir yrðu deildarmeistarar en hefðu sennilega ekki það sem til þyrfti til að klára úrslitakeppnina.
Nú er bara að sjá hvað gerist í vetur því sennilega hefur Dominos-deildin aldrei verið sterkari. Munum bara að væntingar vinna ekki titla og því um að gera fyrir alla Stóla að standa fast með fæturna á jörðinni. Mætum einbeitt og glöð í Síkið í kvöld. Áfram Tindastóll!