- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastólsmenn héldu suður í Hafnarfjörðinn í gær þar sem liðið spilaði við Hauka. Stólarnir voru vel inni í leiknum fram yfir miðjan þriðja leikhluta en þá kom átta mínútna kafli þar sem liðið gerði aðeins fjögur stig á meðan heimamenn röðuðu niður körfum eins og enginn væri morgundagurinn og náðu mest 24 stiga forystu. Stólarnir klóruðu lítillega í bakkann áður en leiktíminn rann út en lokastaðan var 91-73.
Lið Tindastóls mætti til leiks með nýjan aukakana, Chris Davenport, en það var skarð fyrir skildi að Sigtryggur Arnar var hvíldur vegna þrálátra meiðsla. Það virtist þó ekki ætla að bitna á leik liðsins en jafnærði var með liðunum í fyrsta leikhluta og tveir þristar frá Pétri og Viðari undir lok leikhlutans tryggðu Stólunum eins stigs forystu, 20-21. Í upphafi annars leikhluta voru Stólarnir sjóðheitir og þristar frá Hannesi, Viðari og Pétri gáfu ágætt forskot. Stólunum virtust síðan allir vegir færir þegar Helgi Rafn setti niður þrist og kom sínum mönnum tíu stigum yfir, 25-35, þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Í framhaldinu snérist leikurinn við því næstu fjórar mínútur gerðu Stólarnir ekki stig en Hafnfirðingar jöfnuðu og þeir náðu síðan yfirhöndinni fyrir hlé. Staðan 42-39.
Leikurinn var í járnum fyrstu mínútur þriðja leikhluta og munurinn yfirleitt eitt til fimm stig. Hannes Ingi setti niður tvö víti og staðan 54-40 þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum en heimamenn nýttu þessar mínútur vel og komust í 68-54 og voru þar með komnir fjórtán stigum yfir, en Stólarnir höfðu unnið heimaleikinn gegn Haukum með 13 stiga mun og því mikilvægt að reyna að halda Haukum innan þess munar upp á heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni að gera. Það var því fyrir einhverju að berjast.
Stólarnir komu hins vegar gjörsamlega gaddfreðnir til leiks í fjórða leikhluta og það tók liðið rúmar fjórar mínútur að komast á blað og þá var munurinn orðinn rúm 20 stig. Martin tók tvö leikhlé til að reyna að berja smá baráttukrafti í sína menn og leggja línurnar. Stólarnir spiluðu því síðustu fimm mínúturnar ágætlega en Hafnfirðingar voru fullir sjálfstrausts og gáfu lítið eftir. Góður sprettur hjá Axel gaf Stólunum vonarneista og þeir minnkuðu muninn í 14 stig, 84-70, og Stólarnir fengu tvö skot til minnka muninn enn frekar en gæfan var ekki með okkar mönnum og Kári Jóns, sem átti stjörnuleik fyrir Hauka, setti niður þrist hinum megin og slökkti neistann.
Með sigrinum tylltu Haukar sér á topp Dominos-deildarinnar og sitja þar með 24 stig líkt og ÍR og KR. Lið Tindastóls er í fjórða sæti með 22 stig. Fyrrnefndur Kári var bestur á vellinum með 30 stig en aðeins eitt frákast og þrjár stoðsendingar. Haukarnir hittu illa utan 3ja stiga línunnar (23%) en voru mun öflugri innan teigs (63%) en lið Tindastóls (45%). Haukar tóku heldur fleiri fráköst en lið Tindastóls sem tapaði sex boltum fleiri en Haukar.
Pétur var bestur Tindastólsmanna en hann spilaði nánast allan leikinn og endaði með 24 stig, fjögur fráköst og sex stoðsendingar. Hester gerði 21 stig og tók 12 fráköst en nýtingin hans innan teigs og í vítum var ekki góð að þessu sinni. Aðrir leikmenn gerðu ekki meira en sex stig og augljóslega söknuðu Stólarnir Arnar ansi mikið. Chris Davenport náði lítið að sína í þessum leik, gerði aðeins þrjú stig og tók þrjú fráköst á ellefu mínútum en vonandi fellur hann betur inn í leik liðsins eftir því sem á líður.
Næsti leikur er hér heima í Síkinu næstkomandi fimmtudag þegar lið Keflvíkinga kemur í heimsókn.