- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastólsmenn fóru giska létt með botnlið Snæfells þegar liðin áttust við í Dominos-deildinni í Stykkishólmi í kvöld. Heimamenn héngu í stuttbuxum Stólanna fyrstu tólf mínúturnar en síðan skildu leiðir. Snæfellingar réðu ekkert við Antonio Hester sem gerði 43 stig í leiknum og lék á allsoddi. Lokatölur 59-104.
Lið Tindastóls lék án Viðars og Chris Caird en það kom ekki að sök í leiknum. Stólarnir voru yfir, 23-25, eftir fyrsta leikhluta og þristur frá Andrée Michelsson kom heimamönnum yfir í upphafi annars leikhluta. Stólarnir skelltu í pressuvörn sem sló Snæfellinga gjörsamlega út af laginu. Á fimm mínútna kafla um miðjan annan leikhluta gerðu Stólarnir 16 stig í röð og breyttu stöðunni úr 30-35 í 30-51 og þá var nú orðið ljóst í hvað stefndi. Staðan í hálfleik 34-51.
Áfram pressuðu Stólarnir í síðari hálfleik og stálu alls 16 boltum í leiknum. Hvað eftir annað voru heimamenn þvingaðir í vandræðalegan sóknarleik sem endaði oftar en ekki með slæmu skoti eða vondri sendingu. Pétur datt inn með nokkra þrista en hann, Finnbogi og Helgi Margeirs settu allir niður þrjár 3ja stiga körfur í leiknum. Stólarnir voru yfir 48-79 í upphafi fjórða leikhluta og mestur varð munurinn 48 stig í leiknum. Yngri og óreyndari kappar fengu að láta ljós sín skína síðustu mínúturnar og öruggur sigur niðurstaðan.
Hester var hrikalega öflugur í kvöld og gerði nánast það sem honum datt í hug. Nokkrar troðslur voru magnaðar og svo setti kappinn niður einn þrist til hátíðarbrigða. Hann skilaði 43 stigum og ellefu fráköstum. Pétur var líka frábær með 20 stig, sex fráköst, átta stoðsendingar og fimm stolna bolta. Þá áttu Finnbogi, Helgi Margeirs og Björgvin fínan leik.
Næsti leikur Tindastóls er í Síkinu næstkomandi mánudag þegar Stjarnan kemur í heimsókn og síðan er aftur leikið hér heima þremur dögum síðar en þá mætir Tobin Carberry ásamt Þórsurum úr Þorlákshöfn í Síkið.