- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastólsmönnum tókst ætlunarverkið. Strákarnir okkar eru komnir í úrslitin eftir að hafa slegið ÍR út í kvöld í snargeggjuðum körfuboltaleik í Síkinu. Þetta var leikurinn þar sem spennan og stemningin braut alla skala – hér var botnstillingin ekki tíu heldur ellefu. Dramatíkin var ekki síðri og menn eiga örugglega eftir að tala lengi um Troðsluna© frá Davenport í Skagafirði. Maður lifandi! Lokatölur voru 90-87 þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndunni.
Það var logn og vorblíða á Króknum þegar stuðningsmenn beggja liða brenndu í Síkið til að verða vitni að og taka þátt í fjórða leiknum í rimmu liðanna í undanúrslitum Dominos-deildarinnar. Það var þó ljóst löngu áður en leikurinn hófst að það yrði engin lognmolla í Síkinu. Leikurinn fór fjörlega af stað og líkt og í fyrri leikjum voru það Hester, Arnar og Pétur sem fóru fyrir Stólunum sem komust í 11-6. Ryan Taylor var greinilega betur stemmdur í liði ÍR en í leiknum í Hertz-hellinum sl. miðvikudagskvöld og hann fór fyrir sínum mönnum. Arnar var með níu stig í fyrsta leikhluta eftir tvo þrista og þrjú víti en staðan var 26-27 að loknum leikhlutanum.
Stólarnir náðu upp betri vörn í öðrum leikhluta og náðu smá saman yfirhöndinni. Friðrik Þór átti góða innkomu og gerði fjögur stig af vítalínunni og Tindastóll var yfir, 40-35, um miðjan leikhlutann. Hester jók muninn enn en Sigurkarl Jóhannesson, sem átti stórgóðan leik í liði ÍR, minnkaði muninn í 44-40 með þristi. Það var síðan Hannes Ingi sem átti síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar hann laumaði niður þristi og staðan 52-45.
Í hálfleik var afmælissöngurinn sunginn fyrir hinn 74 ára síunga sveiflukóng, Geirmund Valtýsson, og hann smellti sér síðan í Nú er ég léttur við góðar undirtektir.
Sjö stiga forystan var fljót að gufa upp í byrjun þriðja leikhluta því Sigurkarl gerði fyrstu þrjár körfurnar og minnkaði muninn í eitt stig. Þá smellti Hester í þrist, Taylor minnkaði muninn en íleggja frá Viðari og þristur frá Axel kættu fastagesti í Síkinu því nú virtust Stólarnir líklegir til að hrista gestina af sér. Eins og ÍR-ingar hafa margsannað í vetur þá eru þeir engir aukvisar og eftir fimm stig frá Claessen lögmanni var munurinn eitt stig, 66-65. Hester fór nú mikið á vítalínuna og nú var eitthvað annað að sjá til kappans en í fyrri leikjum því í kvöld setti hann 12 víti í 15 tilraunum sem telst ansi gott. Björgvin Ríkharðs gerði fjögur lagleg stig fyrir Stólana undir lok þriðja leikhluta og kom sínum mönnum aftur upp sæmilegu forskoti, 73-66. Hákon Hjálmars svaraði fyrir ÍR með þristi en Pétur matsaði það með smekklegum flautuþristi. Staðan 76-69 fyrir lokaátökin.
Það virtist sem svo í byrjun fjórða leikhluta að nokkuð væri farið að draga af Pétri, en þó sérstaklega Arnari, í liði Tindastóls, enda hefur mikið mætt á þeim í síðustu leikjum og þeir fengið litla hvíld. ÍR-ingar lögðu mikla áherslu á að halda þeim sem mest frá boltanum eða körfunni. Þetta riðlaði að sjálfsögðu sóknarleik Tindastóls sem varð strembnari eftir því sem á leið og kannski var spennustigið líka orðið ansi hátt. Danero Thomas, sem var seigur að vanda en minna áberandi nú þegar Taylor var búinn að finna taktinn, setti niður þrist og minnkaði muninn í eitt stig snemma í fjórða leikhluta. Staðan 78-77 og næstu tvær mínútur báru sóknir liðanna ekki árangur. Þegar sex mínútur voru eftir urðu Stólarnir fyrir áfalli þegar Hester virtist snúa sig á ökkla þegar hann lenti ofan á Axel og í kjölfarið slengdi Taylor niður þristi og kom ÍR yfir, 78-80. Það varð fljótt ljóst að Hester gæti ekki tekið frekari þátt í leiknum og því fékk Chris Davenport tækifæri til að láta ljós sitt skína, en hann hefur nú ekki reynst sérlega happadrjúgur fyrir lið Stólanna.
Nú leist stuðningsmönnum Tindastóls ekki á blikuna – enda ekki sérlega spennandi tilhugsun að þurfa að sækja sigur í Hertz-hellinn ef illa færi að þessu sinni. Stólarnir áttu þrjú skot í næstu sókn en þau geiguðu öll. ÍR-liðið brunaði upp völlinn og Danero henti í þrist og munurinn orðinn fimm stig, 78-83, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Taylor fór hins vegar illa að ráði sínu þegar hann braut óíþróttamannslega á Arnari sem setti bæði vítin niður og í framhaldinu fylgdi Davenport eftir skoti Axels og blakaði í körfuna. Munurinn eitt stig og nú var baráttan og spennan orðin þannig að það gat ekki nokkur maður setið í Síkinu. Spennan virtist ná til Taylors sem klúðraði tveimur vítum, Viðar tók varnarfrákast, klikkaði á skoti en hirti síðan sóknarfrákast og skoraði og kom Stólunum aftur yfir, 84-83. Sigurkarl klikkaði á þristi fyrir ÍR og Pétur skóflaði niður smart körfu eftir gegnumbrot. Næstu sóknir liðann fóru forgörðum en loks var Taylor sendur aftur á vítalínuna og hann setti aðeins niður annað skotið sitt og munurinn tvö stig og innan við mínúta eftir.
Þá var komið að meistarastykkinu. Staðan var 86-84 og Stólarnir þurftu nauðsynlega að auka muninn. Sigtryggur Arnar fékk boltann. Hann var búinn að klikka á óvenju mörgum skotum í síðari hálfleik og fjölin virtist hafa gleymst inni í búningsklefa. Hann hefur þó alltaf trú á því að hann sé að fara að skora þannig að hann skellti sér í þriggja stiga skot. Það small á hringnum og skaust hátt til hægri. Þá kom Davenport skeiðandi og virtist flestum sem hann ætti ekki nokkurn séns á að ná í boltann, kappinn stökk upp, teygði út hægri hendina, greip boltann og tróð með slíkum tilþrifum að Síkið fylltist af magnþrunginni útrás stuðningsmanna Tindastóls sem stóðu svo alveg gáttaðir eftir. Davenport – af öllum mönnum – hafði dúkkað upp með ásinn á ögurstundu og trompað Stólana inn í úrslitin.
En leikurinn var ekki búinn. Það voru enn 35 sekúndur eftir og Danero Thomas minnkaði muninn í eitt stig þegar hálf mínúta var eftir. Arnar fékk þá boltann og hann reyndi skot þegar lítið var eftir af tíma Stólanna en hann hitti ekki. Hann hafði þó heppnina með sér og náði sóknarfrákastinu og nú neyddust ÍR-ingar til að brjóta á honum áður en leiktíminn kláraðist. Hann setti bæði skotin niður og ljóst að gestirnir úr Breiðholti þurftu þrist til að jafna leikinn og koma honum í framlengingu. Matti fékk boltann þegar sjö sekúndur voru eftir og brunaði upp völlinn. ÍR setti upp skrín fyrir hann og hann fékk ágætt skotfæri en boltinn vildi ekki niður og leiktíminn rann út. Fólk dró andann.
Lið Tindastóls er því komið í úrslitaeinvígið í annað sinn á fjórum árum. Nú eru þó örugglega margir sem krossa fingur og vona að Hester verði fljótur að hrista af sér meiðslin sem hann varð fyrir í kvöld. Arnar virtist líka tæpur á sínum nárameiðslum og vonandi gerir hvíldin næstu daga þeim gott.
Leikur liðanna í kvöld var frábær og bæði lið eiga mikið hrós skilið fyrir leiki sína í einvíginu sem voru harðir en heiðarlegir. Leikurinn í kvöld var spennandi og jafn allan tímann, allir leikmenn gáfu allt sem þeir áttu og margir stigu upp þegar á þurfti að halda. Það þarf ekki að hafa mörg orð um snilld Hesters (26 stig/8 fráköst), Arnars (16/4) og Péturs (15/3) en hvað með þá höfðinga Axel Kára og Helga Viggós? Eru einhverjir með stærra hjarta? Björgvin kom með góðan kraft inn í leikinn og Viðar átti magnaðar lokamínútur í kvöld. Friðrik og Hannes áttu fína spretti og hvað með Davenport (4/6)?
ÍR-ingar voru að vonum svekktir í leikslok enda má segja að tækifærið hafi verið þeirra í kjölfar þess að Hester meiddist. En þeir fóru illa að ráði sínu síðustu mínútur leiksins og kannski var það lukkan sem yfirgaf þá? Stólarnir hirtu í það minnsta urmul sóknarfrákasta í lokin en þau vinnast ekki nema með dugnaði og áræðni. Ryan Taylor (25/18) var atkvæðamestur í liði ÍR. Sigurkarl var með 16 stig og Danero Thomas og Matti 15 hvor.
Tindastólsmenn fögnuðu vel og lengi mögnuðum sigri með stuðningsmönnum sínum að leik loknum. Nú er bara að bíða og sjá hverjir verða mótherjar Stólanna í úrslitunum; Haukar eða KR. Áfram Tindastóll!