- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það var boðið upp mikla dramatík og stórundarlegan körfuboltaleik í Síkinu í kvöld þegar baráttuglaðir ÍR-ingar mættu til leiks og stálu sigrinum af steinhissa Stólum. Þegar 15 mínútur voru til leiksloka höfðu Tindastólsmenn 22 stiga forskot en þá náðu gestirnir upp fantavörn á meðan Stólarnir gjörsamlega sprungu á limminu. Næstu fjórtán mínútur gerðu heimamenn þrjú stig á meðan ÍR-ingar settu 29 og þegar loksins kviknaði á heimamönnum þá var tíminn orðinn of naumur til að stoppa í gatið. Lokatölur 71-74 og nú er bara að vona að fall sé fararheill.
Það voru um 500 manns mættir í Síkið í kvöld og Stólarnir vel studdir að venju. Heimamenn fóru vel af stað og Sigtryggur Arnar var sjóðheitur en hann var í byrjunarliðinu ásamt Pétri, Axel, Helga og Chris en Hester því á bekknum til að byrja með. Byrjunarlið gestanna var skipað þeim Daða Grétars, Matthíasi Sig, Sæþóri Kristjáns, Danero Thomas og loks Ryan Taylor sem reyndist Stólunum erfiður.
Eins og við var búist róteraði Israel Martin Stólunum af miklum móð og kannski fannst sumum nóg um. Tindastóll komst yfir 14-6 og voru yfir 21-7 eftir laglegan þrist frá Pétri sem setti niður þrjá þrista í fyrsta fjórðungi. Að honum loknum var staðan strax orðin vænleg, 27-11. ÍR-ingar náðu þó vopnum sínum í öðrum leikhluta en Stólarnir komu á ný sterkir til baka og eftir að Kristinn Marinós braut óíþróttamannslega á Hester setti hann niður fjögur stig í röð og jók muninn í 33-16. Þá hrökk Matti í stuð hjá ÍR og hann og fleiri fóru að nýta sér glufur í varnarleik Tindastóls og sölluðu niður þristum. Þeir minnkuðu muninn í sex stig, 41-35, en Hester setti niður tvö víti fyrir hlé og staðan 43-25.
Tindastólsmenn sýndu frábæran leik í upphafi þriðja leikhluta og virtust ætla að stinga gestina af. Það voru allir að sýna góðan leik í vörn og sókn og Hannes Ingi gerði fimm góð stig um miðjan hálfleikinn. Hann kom Stólunum í 60-38 en í kjölfarið kom þessi stórundarlegi kafli Stólanna þar sem þeir gerðu aðeins þrjú stig þangað til mínúta var eftir af leiknum. Það verður ekki tekið af liði ÍR að það spilaði gríðarlega aggresíva vörn þessar síðustu mínútur, hvað eftir annað sendu Stólarnir boltann inn á teig gestanna þar sem þeir voru settir undir pressu og annað hvort misstu boltann eða honum var hreinlega stolið úr höndunum á þeim. Þetta var með ólíkindum. Engin skot voru opin eða auðveld hjá Stólunum en nú datt flest niður hjá liði ÍR. Á þessum 14 mínútna kafla setti Helgi Rafn niður eitt víti og Hester tvö.
Fjórtán stigum munaði að loknum þriðja leikhluta, 61-47 Tindastóli í vil, en það var sama hversu mörg leikhlé Martin tók, leikur Stólanna fór bara versnandi á meðan öll stemningin færðist yfir í lið gestanna. Danero Thomas kom ÍR yfir, 63-64, þegar um fimm mínútur voru eftir og þeir komust 63-70 þegar um tvær mínútur voru eftir. Chris Caird lagaði stöðuna þegar rétt rúm mínúta var eftir með þristi og þá fóru Stólarnir að brjóta á gestunum til að setja þá á vítalínuna. Það gekk sæmilega því nýtingin var 50% hjá ÍR og Pétur minnkaði muninn í 68-71. Næstu þrjú stig gerðu ÍR-ingar af vítalínunni en þristur frá Pétri gaf vonarneista þegar 13 sekúndur voru eftir. Stólarnir náðu að stela boltanum og það var Pétur sem fékk möguleika á að jafna en undir mikilli pressu náði hann skoti sem small á hringnum en vildi ekki niður. Lokatölur 71-74.
Svekkjandi tap sem sýnir að það verður svo sannarlega ekkert gefins í Dominos-deildinni í vetur. Liði Tindastóls var spáð öðru sæti í vetur og kannski var það að gefa mönnum falskt öryggi auk þess sem liði ÍR var spáð tíunda sæti – sem er reyndar alveg makalaus spádómur. Kani ÍR-inga var reyndar óþekkt stærð fyrir mótið en hann er fyrnasterkur og seigur undir körfunni. Stólarnir áttu erfitt uppdráttar undir körfu ÍR, liðið er talsvert lágvaxið og svo átti Hester í miklu basli, setti aðeins niður 4 af 13 skotum sínum en var drjúgur á vítalínunni. Nú fyrir mót hefur talsvert verið dáðst að breiddinni í Tindastólsliðinu en í kvöld voru alltof fáir sem létu til sín taka í sókninni, því liðið spilaði lengstum ágæta vörn. Axel, Björgvin, Helgi Rafn og Friðrik tóku allir eitt skot í leiknum sem er ekki nóg. Sigtryggur Arnar, sem gerði 16 stig í leiknum og stal sex boltum en tapaði sjö, fór vel af stað en hann átti erfitt uppdráttar á lokakaflanum líkt og allt liðið. Pétur var bestur Stólanna með 22 stig og var nálægt því að tryggja framlengingu. Hester var síðan með 17 stig.
ÍR-ingar spiluðu lengstum fast og gerðu vel í því að stöðva flæðið hjá heimaliðinu. Ágætis breidd er í liði Breiðhyltinga sem notuðu alla tíu leikmenn sína í leiknum. Þeir náðu frábærum köflum þar sem allir leikmenn virtust geta sallað niður þristum og ef þeir ná upp þessum baráttuanda í leikjum, sem ætti ekki að vera vandamál undir stjórn Borce, þá gætu þeir komið verulega á óvart í vetur. Stólarnir eru hinsvegar komnir rækilega niður á jörðina og þurfa að koma höfðinu í lag hið fyrsta því þetta tap var alveg út í Hróa Hött.