- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll og KR buðu upp á naglbít fyrir troðfullu Síkinu í kvöld í leik sem bauð upp á flest það sem áhorfendur vildu sjá – nema auðvitað vitlaus úrslit því það voru gestirnir úr Vesturbænum sem fóru með sigur af hólmi eftir glæsilega/hörmulega flautukörfu frá Brynjari Þór af öllum mönnum. Já, Guðirnir eru ekki alltaf í stuði. KR-ingar virtust hafa tryggt sér sigur með frábærum kafla seint í leiknum en Stólarnir kröfsuðu sig inn í leikinn í blálokin og besti maður vallarins, Pétur Birgis, jafnaði með þristi þegar 26 sekúndur voru eftir. En Brynjar átti síðasta orðið og KR er nú með 2-1 forystu í einvígi liðanna. Lokatölur leiksins voru 75-77.
Strax klukkutíma fyrir leik var Síkið orðið troðfullt og síðan varð það bara fyllra og fyllra. Stemningin var einstök og hélst allt þar til lokaskotið fór niður hjá KR-ingum en þá mátti nánast heyra saumnál detta.
Leikurinn fór vel af stað og var jafn og spennandi allan fyrri hálfleikinn. Stólarnir byrjuðu betur, komust í 9-2 með Davenport í fínu stuði. KR-ingar tóku leikhlé og löguðu leik sinn og jöfnuðu með það sama. Stólarnir voru þó alltaf feti framar og þristar frá Arnari og Viðari sköpuðu smá andrými en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 23-22. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta og nú var það Pétur sem fór fyrir sínum mönnum en hann gerði 14 stig í leikhlutanum. Stólarnir náðu sjö stiga forskoti eftir tæpar 17 mínútur, 40-33, en KR gerði næstu átta stig og komst yfir. Pétur svaraði með tvisti og kórónaði síðan leik sinn í fyrri hálfleik með 3ja stiga skoti rétt innan við miðlínu í þann mund sem leiktíminn rann út. Staðan 45-41 í hléi.
Þriðji leikhluti virtist ætla að þróast svipað og hinir fyrri. Stál í stál. Stólarnir náðu átta stiga forystu þegar um fjórar mínútur voru liðnar, 54-46, eftir laglega körfu frá Björgvini og þrátt fyrir að að KR-ingar væru farnir að spila leikinn ansi fast. Finnur þjálfari KR tók leikhlé og sendi sína menn alveg trítilóða til leiks á ný og nú datt leikur Stólanna niður. Menn fóru að verða værukærir í vörninni og sóknarleikurinn var ráðleysislegur og á næstu þremur mínútum gerðu gestirnir 13 stig en Stólarnir aðeins tvö. Björgvin minnkaði muninn í eitt stig, 58-59, en síðan kom enn verri kafli hjá liði Tindastóls sem gerði aðeins eitt stig næstu sjö mínútur.
Staðan var 59-71 þegar rétt rúmar sex mínútur voru eftir af leiknum og KR virtist ætla að tryggja sér öruggan sigur því Stólarnir voru slakir á þessum kafla. Þá kom skyndilega þristur frá Helga Margeirs en síðan liðu þrjár mínútur án þess að liðin næðu að skora. Á þessum kafla skelltu Stólarnir loks í lás í vörninni og Arnar minnkaði muninn í sjö stig með tveimur vítum þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Stólarnir unnu boltann aftur og Pavel braut óíþróttamannslega á Axel Kára sem setti niður tvö víti, Stólarnir tóku boltann inn og Arnar setti niður þrist og minnkaði muninn í tvö stig. Staðan 69-71. Kristófer Acox, sem var í miklum ham í kvöld, lagði boltann í körfuna en Viðar setti niður þrist og minnkaði muninn í eitt stig. Aftur skoraði Acox og Stólarnir misstu boltann en Darri misnotaði ágætt færi fyrir KR. Stólarnir tóku leikhlé þegar rétt um hálf mínúta var eftir af leiknum og þeir teiknuðu upp leikkerfi sem fólst í því að Pétur fékk boltann niðri í vinstra horninu og þaðan setti hann niður ótrúlegan þrist og jafnaði leikinn, 75-75. KR tók leikhlé og Stólarnir náðu upp góðri vörn sem endaði með því að Helgi Rafn braut á Jóni Arnóri þegar þrjár sekúndur voru eftir. Þegar leikurinn hófst á ný var boltanum kastað til Brynjars Þórs sem var með Pétur í bakinu, hann bömpaði Pétur aðeins og náði að búa sér til smá pláss til að komast frá honum og taka fáránlega erfitt skot yfir hann. Sviss, bang og búmm.
Hámarks svekkelsi fyrir Stólana sem áttu því miður of langan slæman kafla í síðari hálfleik. Lið KR því aftur komið með forystuna og ekkert annað í boði en að mæta enn á ný dýrvitlausir í DHL-höllina næstkomandi laugardagskvöld og reyna að þrýsta einvíginu í oddaleik sem færi þá fram í Síkinu 1. maí.
Pétur var sem fyrr segir bestur í liði Tindastóls með 24 stig og tíu stoðsendingar. Sigtryggur Arnar gerði 16 stig en hann hefur þó ekki náð sér á sitt snilldarstrik í sókninni í síðustu leikjum en hann er að þrauka í gegnum meiðsli. Davenport var ágætur framan af leik og gerði nokkrar glæsikörfur en KR-ingum gekk betur að verjast honum þegar á leið. Viðar setti tvö þrista og var öflugur í vörninni en hann er að spila vel þessa dagana. Hester var með í kvöld en var augljóslega langt frá því að vera heill. Vonandi hefur hann ekki haft verra af þessum mínútum sínum í kvöld og nær að komast á betra ról fyrir fjórða leikinn því það er sannarlega bæði þörf og nauðsyn. Aðrir leikmenn náðu sér ekki á strik í stigaskorinu og munar um minna.
Í liði KR var Kristófer Acox öflugastur með 18 stig og 11 fráköst. Brynjar Þór var með 15 stig og Kendall Pollard 15.
Fjórði leikurinn fer fram núna á laugardaginn og hefst kl. 20:00. Nú verða Tindastólsmenn að sigra til að koma einvíginu í oddaleik í Síkinu. Annars verða það KR-ingar sem fagna Íslandsmeistaratitlinum fimmta árið í röð.