Öruggur sigur gegn Völsurum í Síkinu

Í gær áttust við í Lengjubikarnum fyrstudeildarliðið Tindastóll og úrvalsdeildarliðið Valur úr Reykjavík í Lengjubikarnum í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Stólarnir komu vel stemmdir til leiks og byrjuðu af krafti en eftir þrjár mínútur var staðan orðin 16-2 þeim í vil. Valsarar stigu þá upp og reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en gátu best 25 – 17 í fyrsta leikhluta sem endaði 32 – 18 fyrir heimamenn.

Í öðrum leikhluta var meira jafnræði með liðunum ef hægt er að orða það svo þar sem Tindastóll leiddi alltaf með nokkrum mun en staðan í hálfleik 50 – 43 fyrir Stólana.

Í þriðja leikhluta settu Stólarnir í fluggírinn og stungu Valsarana af með góðum leik meðan lítið gekk hjá sunnanmönnum staðan eftir þriðja leikhluta 80 – 55.

Í fjórða leikhluta höfðu Stólarnir sama háttinn á og léku við hvurn sinn fingur. Allir leikmenn liðsins fengu að spreyta sig og stóðu sig með prýði. Þegar leikurinn var flautaður af var staðan 109 – 85 heimamönnum í vil, sanngjarn sigur og áhorfendur fengu vel fyrir peninginn.

Næsti leikur Stólanna verður á morgun er Keflvíkingar koma í Síkið og eru allir hvattir til að mæta í stúkuna og hvetja strákana okkar til sigurs.

Stigahæstir Stólanna voru Antoine Proctor með 26 stig, Helgi Rafn 24, Darrell Flake 15, Ingvi Rafn 13, Pétur Rúnar 10.

/PF